Jón Guðmundsson fæddist á Blesastöðum á Skeiðum 14. mars 1911. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 13. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Magnússon, f. 1878, d. 1972, og Kristín Jónsdóttir, f. 1886, d, 1971, ábúendur á Blesastöðum á Skeiðum. Jón var elstur 16 systkina en þau voru: Magnús, f. 1912, d. 1997, Hermann, f. 1913, d. 1980, Guðrún, f. 1914, d. 1997, Elín, f. 1916, Helga, f. 1917, Þorbjörg, f. 1918, Magnea, f. 1919, d. 2000 , Laufey, f. 1920, Ingigerður, f. 1921, stúlka, f. 1922, d. 1922, Óskar eldri, f. 1923, d. 1924, Svanlaug, f. 1924, Ingibjörg, f. 1925, Hrefna, f. 1927 og Óskar yngri, f. 1929.

Jón hóf búskap árið 1935 með Guðrúnu Ásgeirsdóttur, f. 4.11. 1912, d. 11.7. 2000 frá Eiði í Hestfirði. Jón og Guðrún hófu sinn búskap á Blesastöðum á Skeiðum en fluttu árið 1940 til Hveragerðis. Þau slitu samvistum árið 1973. Eignuðust þau sex börn og þau eru: 1) Þórarinn Ingi, f. 1935, kvæntur Björgu Hjartardóttur, f. 1937, og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. 2) Guðmundur Kr., f. 1937, kvæntur Valgerði Magnúsdóttur, f. 1941, og eiga þau þrjár dætur, átta barnabörn og eitt barnabarnabarn. 3) Ásgeir, f. 1942, kvæntur Maríu Halldórsdóttur, f. 1936, og eiga þau fjögur börn og þrjú barnabörn. 4) Sigurður, f. 1945, og á hann einn son og eitt barnabarn. 5) Bryndís, f. 1949, gift Ágústi Þorgeirssyni, f. 1949, og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn. 6) Valgeir, f. 1954, kvæntur Ingibjörgu Jóhannesdóttur, f. 1954, og eiga þau þrjár dætur. Afkomendur Jóns og Guðrúnar eru nú 47.

Jón gekk í barnaskólann í Brautarholti og fór síðar á Héraðsskólann á Laugarvatni. Ungur byrjaði Jón að stunda smíðar og lærði hann síðar þá iðn sem var starfsvettvangur hans alla tíð. Jón var byggingameistari að mörgum byggingum á Suðurlandi og má þar nefna Heilsuhæli NLFÍ og Hveragerðiskirkju.

Útför Jóns verður gerð frá Hveragerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi og tengdapabbi

Við andlátsfregn þína

allt stöðvast í tímans ranni.

Og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn

tjáð var í bænunum mínum,

en guð vill fá þig

og hafa þig með englunum sínum.

Við getum ei breytt því,

sem frelsarinn hefur að segja,

um hver fær að lifa,

og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.

Svo auðmjúk og hljóð

Við lútum að frelsarans vilja.

Þó sorgin sé sár

og erfitt sé við hana að una,

við verðum að skilja

og alltaf við verðum við að muna,

að guð, hann er góður

og að hann veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farin þú sért

og horfinn burt þessum heimi,

ég minningu þína

ávallt í hjart mér geymi.

Ástvini þína ég bið síðan

guð minn að styðja,

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Jónsdóttir.)

Með þessu ljóði viljum við kveðja þig, elsku pabbi og tengdapabbi, og þakka þér fyrir alla þá umhyggju og ást sem þú gafst okkur og börnunum okkar. Megi Guð fylgja þér á nýjum slóðum. Minning þín lifir áfram í hjörtum okkar.

Ástarkveðjur.

Bryndís og Ágúst.

Elsku afi. Lasleiki hafði hrjáð þig æ oftar síðustu árin en alltaf hafði þitt stóra hjarta vinninginn. Er mamma hafði samband við mig nokkrum dögum áður en þú lést og sagði mér að þú værir orðinn ansi slappur, hafði ég enga trú á því að þú myndir ekki rífa þig upp úr þessu, líkt og þú varst vanur að gera.

Á stundu sem þessari streyma fram minningarnar. Enda varst þú stór partur af uppvexti mínum. Þú varst svo miklu meira en venjulegur afi. Hjartalag og umhyggja þín var engu lík. Alltaf vissir þú hvað var að gerast í lífi okkar og tókst þátt af mikilli innlifun í sigrum okkar og sorgum. Við bjuggum fyrstu fjögur árin mín í húsinu þínu á meðan mamma og pabbi gerðu húsið okkar klárt. Ég man ekki margt frá þessum tíma enda ung að árum. En alltaf er mér í fersku minni er þú komst með "lifandi" páskaunga í pappakassa. Ekki man ég af hverju þú varst með þessa unga en mikið fannst okkur þetta gaman, mér og Jóni Inga bróður. Til eru ófáar myndir af okkur systkinunum með þér.

Við að atast á þér eða uppi í kjöltu þinni. Alltaf var faðmurinn opinn og eitthvert skiptið var haft eftir þér að "Telpan verður nú aldrei of stór til þess að koma upp í fangið á mér." Mamma hafði líka gaman af að sjá okkur um síðustu jól, ég sitjandi þétt upp við þig (enda orðin of þung til þess að þú gætir haldið á mér) með handlegginn utan um þig.

Margar voru helgarferðirnar sem lítil stelpa fór með rútunni til Hveragerðis og alltaf tókstu á móti mér með opin faðminn. Söl frá Hælinu og Júmbó hamborgar, eða heimalagaðar pylsur voru í uppáhaldi. Aldrei þreyttist þú á að spila rommý við mig.

Þú varst ótrúlega hress langt fram eftir aldri en þó að líkaminn væri farinn að gefa sig þá var hugurinn alltaf á sínum stað. Þú ferðaðist víða um landið og hafðir mikla ánægju af. Ófá voru ferðalögin sem þú tókst okkur systkinin með í. Fyrst okkur Jón Inga og svo seinna Jóhönnu. Minnisstæð er mér ferð þín með Þorfinni mági þínum og Þorgeiri vini þínum sumarið 1998. Þið höfðuð farið inn í Kerlingarfjöll og fleiri staði og endað inni á Laugarvatni, þar sem þú hafðir heyrt að ég og litla fjölskyldan mín værum stödd í sumarbústað. Þú komst drulluskítugur upp fyrir haus en brostir allan hringinn, ánægður með vel heppnaðan túr. Þarna áttum við yndislegar stundir saman, enda átti Laugarvatn stóran stað í hjarta þínu sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir fyrr en þá. Við skoðuðum gamla skólann þinn, Héraðsskólann, og aðrar byggingar sem standa enn frá þeim tíma er þú varst þarna í skóla. Þú fræddir mig og safnvörðinn mikið um þann tíma. Þú og skólabræður þínir höfðuð gert ykkur lítið fyrir og byggt íþróttahús þennan vetur sem þú varst þarna. Svona vinnubrögð og fórnfýsi myndi ekki þekkjast í dag!

Elskulegi afi ferðagarpur! Góða ferð í ferðalagið. Takk fyrir allt.

Þín afastelpa,

Sigurveig.

Okkur langar að minnast afa okkar í örfáum orðum en það hafði mátt búast við því í þó nokkurn tíma að hann færi að kveðja okkur því líkaminn var orðinn þreyttur. Sem betur fer varð sjúkrahúslega hans mjög stutt í þetta síðasta skiptið því ekkert líkaði afa verr en að liggja á spítala vegna þess að hann vildi alltaf hafa nóg að gera og taka þátt í lífinu af fullum hug og það gat hann ekki liggjandi á spítala.

Afi fylgdist mjög vel með öllu til síðasta dags hvort sem um var að ræða þjóðfélagsmál eða fjölskyldan. Sem dæmi má taka að hann keypti sjálfur allar jólagjafir handa langafabörnunum sínum fram að níræðu og voru þetta alltaf mjög góðar gjafir sem hæfðu aldri hvers barns mjög vel. Hann vildi alltaf vera þátttakandi í því sem var að gerast hverju sinni og fyrir fjórum árum þá var eitt okkar systkina að undirbúa fermingarveislu og afi kom með pabba að líta á salinn þá var gamli maðurinn fljótlega kominn í það að hjálpa við að raða borðum og stólum og meira segja að setja dúkana á borðin.

Afi hafði ekki bara áhuga á sínum nánustu, stórfjölskyldan þ.e. systkini hans og afkomendur þeirra skipuðu líkan stóran sess hjá honum og helst vildi hann hafa ættarmót á hverju ári þannig að hann gæti fylgst vel með öllum. Ættarmót afkomenda foreldra hans frá Blesastöðum voru venjulegast haldin á fjögurra ára fresti en afi kom því til leiðar að haldið var einskonar aukaættarmót á milli ættarmóta svo hann gæti nú hitt alla. Sem betur fer lifði afi að komast á ættarmót síðastliðið sumar sem haldið var í Brautarholti á Skeiðum. Að sjálfsögðu vildi hann nú líka vera fullgildur þátttakandi þar og þegar verið var að undirbúa matinn í eldhúsinu þá var afi kominn þangað til þess að vita hvort allt færi nú ekki vel fram. Eins vildi hann líka fylgjast vel með því sem var að gerast í sveitinni sinni og fór þess á leit við pabba okkar að hann keyrði með sig á einhverja bæi á sunnudagsmorgninum svo hann gæti fengið fréttir af gömlum sveitungum og hverjir væru ábúendur hvar o.s.frv.

Já, minningin um afa lifir í hjörtum okkar, minning um mann sem alltaf vildi hafa nóg fyrir stafni og fylgjast vel með sínu fólki.

Smári, Rósa og Björk.

Elsku afi minn, það eru margar minningarnar sem koma í huga mér við fráfall þitt. Fyrst og fremst minningin um alla þá hlýju og ástúð sem þú veittir mér. Ég var ekki gömul þegar að ég byrjaði að þvælast ein í rútunni austur í Hveragerði til að fá að vera með þér. Margar dýrmætar samverustundir áttum við saman. Þær voru ófáar stundirnar sem við sátum saman og spiluðum rommí.

Þau voru mörg ferðalögin sem þú bauðst mér í og við gistum í rauða tjaldinu þínu. En Lambhagaferðirnar eru mér alltaf kærastar. Það á eftir að vera tómlegt að fara í Lambhaga án þín, afi minn. Elsku afi minn takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér, þú átt alltaf eftir að eiga stað í hjarta mínu.

Að lokum vil ég kveðja þig með þessu ljóði:

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um huga minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Þín

Jóhanna.

Afi minn.

Stundin líður, tíminn tekur

toll af öllu hér

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi,

viti á minni leið

þú varst skin á dökkum degi

dagleið þín var greið.

þú barst tryggð í traustri hendi

tárin straukst af kinn

þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Afi minn. Með þessu ljóði vil ég þakka ér fyrir allar yndislegu samverustundir okkar, vinskap og ást. Kær kveðja.

Þinn

Jón Ingi.

Elsku afi, þú varst mjög góður afi. Ég sakna þín mikið.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús, mæti.

(Höf. ók.)Bless, elsku afi, og takk fyrir allt.

Þín dótturdóttir.

María Rut.

Fallinn er frá á tíræðisaldri Jón Guðmundsson fv. yfirsmiður Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði. Jón þekkti vel langafa minn Jónas Kristjánsson lækni sem var helsti hvatamaður að byggingu Heilsuhælisins, eins og það hét á sínum tíma. Jón kom að uppbyggingu þessarar merku stofnunar strax í upphafi og tengdist henni órjúfanlegum böndum upp frá því og er í raun samofinn sögu hennar. Mínar fyrstu minningar tengjast langafa mínum og Heilsuhælinu þar sem ég var tíður gestur sem barn. Sem unglingur og síðar sem menntaskólanemi starfaði ég við afleysingar í fjöldamörg sumur í Hveragerði og kynntist þá Jóni sem var mikill öðlingur og hvers manns hugljúfi. Hann var engu að síður ákaflega fastur fyrir ef á þurfti að halda, réttsýnn og sanngjarn og kunni lagið á okkur strákunum sem oft reyndum að svíkjast undan. Jón starfaði nánast óslitið við stofnunina frá ársbyrjun 1954 þegar hann átti lægsta tilboð í að gera fyrstu bygginguna fokhelda og þar til hann lét af störfum 1994, þá 81 árs gamall. Ég kann enga kveðju betri til Jóns en að herma upp á hann kvæði sem ort var af Gretari Fells til NLFÍ og langafa míns í tilefni af tíu ára afmæli NLFÍ á sínum tíma:

Frumkvöðlum ég færi þakkir,

ekki síst mínum gamla vini,

hógværa, göfuga, hjartaprúða kappanum

Jóni Guðmundssyni.

Blessuð sé minning þín - í guðs friði.

Gunnlaugur K. Jónsson,

forseti NLFÍ.

Einhverju sinni var sagt að þeir einir verðskulduðu minnisvarða sem engan þyrftu. Líf Jóns Guðmundssonar byggingameistara er einn allsherjar minnisvarði um eljusemi og dugnað, samviskusemi, verkhæfni og ráðsnilld. Huglægi minnisvarðinn er virðing fyrir einstökum manni sem vann þjóð sinni vel og skilaði gríðarlegu verki í þágu þúsunda og komandi kynslóða. Engar voru kröfur hans um viðurkenningu, hvorki um árangurstengdar greiðslur, sem nú tíðkast mjög, né orðaskraf um ágæti hans. Þó vann hann meiri afrek og skilaði meira verki en margir þeir, sem nú eru helst lofaðir fyrir að auka verðmæti í pappírum og peningum. Án efa fæst arðurinn af mannanna verkum uppgerður um síðir.

Leiðir okkar lágu saman fyrir rúmum áratug. Hann var þá kominn á níræðisaldur og að baki var löng og gifturík starfsævi, þúsundir fermetra af gagnlegum húsum fyrir fólk, sem leitaði sér heilsubótar, iðkaði trú sína og list og átti skjól og öryggi í daglegu lífi. En þessi eldhugi lét ekki staðar numið, fylgdist með öllum framkvæmdum, lét í ljós skoðanir og gaf góð ráð. Jón Guðmundsson skilur eftir óbrotgjarnan minnisvarða, sem reis á grunni mikilla hæfileika manns og smiðs. Fyrir hönd Heilsustofnunar NLFÍ þakka ég honum ómetanlegt starf. Sjálfur þakka ég elskuleg kynni.

Árni Gunnarsson.

Bíðið dauðans

með góðum hug

og hafið

þetta eitt fyrir

satt:

Góðum manni getur

ekkert grandað,

hvorki lífs né liðnum,

og guðirnir eru ekki

afskiptalausir

um hans hag.

(Sókrates.)

Við Jón kynntumst fyrst árið 1985 á okkar sameiginlega vinnustað, á Heilsuhælinu þar sem hann vann alllengi. Ef eitthvað vantaði, þá var Jón alltaf til staðar og hjálpaði öllum af einlægni. Mér fannst Jón vera einn af þeim sem sköpuðu "gott andrúmsloft" hvar sem hann var og það óafvitandi.

Seinna var það hann, sem kom mér inn í skemmtilegan ferðahóp sem mér þótti alveg sérstaklega vænt um. Jón var - þrátt fyrir háan aldur - ávallt reiðubúinn til að "leggja í hann" og varð oftast mjög gaman í þessum jeppaferðum. Jón var blíður, félagslyndur, hjálpsamur og oftast sá sem "kynti ofninn", í orðsins fyllstu merkingu. Yndislegt var að sjá hann brosa eða hlæja og það að setjast við hlið hans var eins og að vera kominn heim.

Núna er Jón einu skrefi á undan okkur. Hann er búinn að kveðja, en minning um hann mun alltaf vera böðuð sólarljósi.

Bea.

Fallinn er í valinn félagi okkar, hann Jón í Hveragerði. Jón gamli eða Jón smiður eins og við kölluðum hann, varð ferðafélagi okkar í Samfarafélaginu fyrir um þrjátíu árum eða svo. Eflaust voru það Deidei frændi og Sólveig sem drógu hann með í einhverja ferðina, og einhvern veginnvarð Jón ásamt Binnu og Sigurjóni heitnum nánast ómissandi ferðafélagar okkar. Ekki það að við kæmumst ekki til fjalla án þeirra, heldur eins og Jón stóri orðaði það: "Það eru forréttindi að fá að ferðast með þessu fólki." Þeirra lífsreynsla, þeirra lífssýn og lífsþroski var og er þess eðlis að við unga fólkið sóttum í samfylgd þeirra.

Ógleymanleg eru orð Jóns gamla og æðruleysið er við einhverju sinni fórum yfir Markarfljótið á aurunum neðan Þórsmerkur í óþægilega miklu vatni. Fyrsti jeppinn var kominn yfir og Jón beið þess í næsta bíl að fara yfir fljótið. Bílstjórinn spurði hann hvernig honum litist á og fékk svarið: "Jæja drengir, þetta er góður dagur til að deyja." Og eflaust drap hann tittlinga um leið.

Nú er hann Jón gamli kominn yfir móðuna miklu, að þessu sinni án okkar, og bíður þess á hinum bakkanum að lóðsa okkur yfir þegar kallið kemur.

Gamli félagi, við þökkum samfylgdina.

Fyrir hönd Samfarafélagsins,

Þorvarður Ingi Þorbjörnsson.

Að heilsast og kveðjast

það er lífsins saga.

Þegar við nú kveðjum félaga okkar og samferðamann, Jón Guðmundsson, setur okkur hljóð og hugurinn reikar gjarnan til samverustunda liðinna ára. Jón Guðmundsson var einn af aldamótakynslóðinni sem ekki fæddist með silfurskeið í munninum, sem með atorku og útsjónarsemi þurfti að sjá sér og sínum farborða. Og lífið var ekkert nema vinna. Það er ekki aðeins að aldamótakynslóðin sé að hverfa með alla sína fjölbreyttu lífsreynslu, við Hvergerðingar erum einnig að sjá á bak því fólki sem hér hefur lifað og starfað og átt sinn stóra þátt í því að Hveragerði er orðið það bæjarfélag sem það nú er.

Ég, sem þessar fátæklegu línur rita, kynntist Jóni Guðmundssyni 1970 þegar við fjölskyldan fluttum hingað í Hveragerði. Við Jón unnum saman á Heilsustofnun, hann fyrst í húsasmíðum en síðustu árin í viðhaldinu. Í hálftíukaffinu á morgnana laumaði Jón sér gjarnan inn á Gull til okkar kvennanna og fékk sér kaffisopa. Var þá mikið skeggrætt og skrafað um þau mál sem efst voru á baugi hverju sinni og vantaði ekki að við fórum létt með að afgreiða þjóðmálin og rétta þjóðarskútuna af.

Þegar voru kosningar hafði Jón gjarnan þann sið að hann fór á allar kosningaskrifstofur og spjallaði við fólkið, en ég vissi aldrei hvar hann stóð í pólitík.

Jón var með afbrigðum traustur og góður ferðafélagi, var alltaf að hugsa um að allt gengi vel og allir væru kátir og glaðir. Við fórum í margar ferðir saman, fyrst með Alþýðubandalaginu og svo með eldri borgurum en í þeim félagsskap var hann virkur alveg frá stofnun þess og fullur af áhuga að allt gengi sem best. Þegar við eldri borgarar vorum búin að kaupa húsnæðið, sem nú heitir Þorlákssetur og er félagsaðstaða okkar, hringdi Jón í einn félagann og bað hann skreppa með sig til Reykjavíkur. Jón var þá orðinn 90 ára en erindið var að sækja leirtau fyrir hundrað manns sem hann færði félaginu að gjöf. Við félagarnir þökkum af alhug þessa rausnarlegu gjöf og alla hans samfylgd.

Síðast þegar ég hitti Jón var hann orðinn lasinn og þreyttur enda aldurinn hár, sagðist hann nú helst vilja fara að fá hvíldina, og nú hefur þú fengið hana, kæri vinur.

Hafðu þökk fyrir allt og allt

Við félagar í Félagi eldri borgara í Hveragerði sendum fjölskyldu Jóns innilegar samúðarkveðjur.

Auður Guðbrandsdóttir.

Nú er byggingameistarinn Jón Guðmundsson allur. Ekki sést hann lengur á göngu niður Skáldagötu með staf í hendi.

Fyrir um 70 árum fluttist hann með fjölskyldu sína til Hveragerðis og reisti sér hús við nyrstu götuna í þorpinu. Jóhannes úr Kötlum og Ríkarður Jónsson reistu sér hús við sömu götu og fóru þorpsbúar að kalla hana Skáldagötu.

Þá var hiti ofarlega í jarðskorpunni. Það þurfti að bora 15 metra eftir heitu vatni til að hita upp húsin. Jón hafði annan hátt á. Hann gróf þriggja metra djúpa holu niður í hraunið við húsvegginn og kom þar fyrir pottofnum og tengdi þá við miðstöðvarkerfi húsins, því hiti var í botni holunnar. Þannig fékk hann hita í húsið. Sömu aðferð hafði Jóhannes úr Kötlum við upphitun í húsi sínu er hann kom frá Noregi 1947. Eftir að Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag skírði Gunnar Benediktsson rithöfundur götur þorpsins og skírði Skáldagötuna Frumskóga. Í þeirri götu bjó hann í 30 ár.

Það eru um 50 ár síðan ég kynntist Jóni. Var hann þá búinn að byggja mörg hús í Hveragerði og víðar. Stærsta verk hans var að reisa húsin hjá NLFÍ og kirkjuna í Hveragerði.

Það sem mér fannst merkilegt við Jón hvað hann var ferskur í huga allt til þess síðasta. Hann lét engan hugsa fyrir sig. Hugur hans var eins og tölva. Ég var eitt sinn með honum á vörusýningu í íþróttahöllinni í Reykjavík. Var þar til svara ungur maður starfandi hjá fyrirtæki einu í Reykjavík. Eftir nokkrar spurningar var ungi maðurinn feginn að komast í burtu, því spurningarnar voru ekki um hestöfl eða stærð heldur margt annað sem Jóni fannst að maðurinn ætti að vita.

Jón var einn af þeim mönnum sem alltaf höfðu tíma til að liðsinna öðrum og var ekki ónýtt að fá hann í heimsókn, því hann virtist hafa ráð við öllu. Hvort það var við leiklist, byggingar eða gróður jarðar.

Nú kveðjum við þennan aldna frumbyggja Hveragerðis, sem settist hér að fyrir stríð og byggði fjölda húsa. E.t.v. er hann nú að ganga niður Frumskógagötu í heimsókn að líta eftir framkvæmdum hjá nábúunum, þótt við sjáum hann ekki.

Oddgeir Ottesen.

Jæja, komdu sæll, sagði Jón er hann kom inn ganginn í kaffisopa og eftirlitsferð. Jóni kynntist ég fyrst er ég kvæntist inn í Blesastaðaættina fyrir rúmum tveimur áratugum. Það var ekki fyrr en við keyptum gamla æskuheimilið mitt við Frumskóga að leiðir okkar Jóns lágu saman fyrir alvöru. Við vorum að gera upp húsið og Jón sem bjó í næstu götu kom iðulega í kaffitímanum til okkar, því ekki vildi hann trufla vinnandi fólk. Hann kom til þess að fá fréttir og einnig var hann látinn taka út framkvæmdir, því ef Jón var ánægður með verkið vissi ég að allt var á réttri leið. Oftast var beðið eftir Jóni og hann spurður spjörunum úr, bæði um smíðar og einnig um lífið í götunni á árum áður, en Jón var frumbyggi í götunni. Var minnið og rökfestan mikil hjá honum, ef ég var með einhvern byggingarhlut, t.d flísar og spurði hann hvað fermetrinn kostaði, þá spurði hann iðulega til baka: Hvað kostar 1X6? og eftir að hann vissi það, sagði hann: Látum okkur nú sjá og umreiknaði verðlag frá því í gamla daga til dagsins í dag og var iðulega mjög nærri kostnaðinum. Og alltaf reyndi ég að koma með flóknari vörur og ávallt spurði hann fyrst hvað 1X6 kostaði og eftir smáumhugsun kom svarið. Ég er viss um að þeir þarna hinum megin eru búnir að bíða eftir Jóni til að leysa úr einhverjum byggingarvandamálum, og er hann ábyggilega langt kominn með lausnina. Ég kveð þig eins og þú kvaddir er þú fórst: Jæja, vertu sæll.

Morten G. Ottesen.