Hinn reykvíski Beckham rólar sér.
Hinn reykvíski Beckham rólar sér.
VÍKVERJI hefur fylgst með uppgangi Íslenska dansflokksins á síðustu árum. Flokkurinn hefur í tíð Katrínar Hall markað sér skýra listræna stefnu með áherslu á nútímadans með eftirtektarverðum árangri.

VÍKVERJI hefur fylgst með uppgangi Íslenska dansflokksins á síðustu árum. Flokkurinn hefur í tíð Katrínar Hall markað sér skýra listræna stefnu með áherslu á nútímadans með eftirtektarverðum árangri. Margir nafnkunnir erlendir danshöfundar hafa lagt flokknum lið og hafa sýningar hans vakið athygli, hver á fætur annarri, jafnvel út fyrir landsteinana.

Þetta er ánægjulegt í ljósi þess að listdans hefur lengst af verið hálfgert olnbogabarn í íslensku listalífi. Áfram á sömu braut!

Það er bara eitt sem fer í taugarnar á Víkverja þegar listdans á í hlut; nöfn verkanna. Þau eru iðulega á útlensku. Þannig frumsýndi flokkurinn nýja sýningu í liðinni viku með þremur verkum, The Match, Symbiosis og Party. Annað nærtækt dæmi er Danshátíð Reykjavíkur, sem vitaskuld var kynnt í fjölmiðlum sem Reykjavik Dance Festival. Á þeirri hátíð hétu fjögur verk af sex útlenskum nöfnum. Hverslags er þetta? Er listdans ekki fyrir Íslendinga? Vel má vera að höfundarnir stefni að því að sýna verk sín á erlendri grundu en mega útlensku nöfnin ekki bíða þangað til? Íslenska er okkar mál. Því megum við ekki gleyma.

HIN bráðskemmtilega sýning Vesturports á Rómeó og Júlíu hefur slegið í gegn í Young Vic-leikhúsinu í Lundúnum. Víkverja skilst að mikil stemmning hafi verið á sýningum og umsagnir breskra fjölmiðla hafa verið afar lofsamlegar. Það er dirfska hjá erlendum leikhópi að sýna Shakespeare á hans heimavelli, að ekki sé talað um jafnóvenjulega sýningu og þarna er á ferð. En þetta hefur gengið upp og óvíst er að íslenskt leikhús hafi í annan tíma fengið jafnmikla kynningu erlendis.

Sagt hefur verið frá dómum um sýninguna hér í blaðinu að undanförnu og litlu við það að bæta. Þó má Víkverji til með að láta eina umsögn úr vikuritinu What's On fylgja með. Þar er höfuðpaur sýningarinnar nefnilega líkt við sjálfa þjóðargersemi Englendinga: "Gísli Örn Garðarsson, sem leikstýrir verkinu af öryggi jafnframt því að leika Rómeó, lítur út eins og svar Reykjavíkur við David Beckham..."

Nú er bara að sjá hvort Beckham sjálfur á eftir að líta inn í Young Vic en sumt bendir til þess að hann hafi yndi af verkum Shakespeares. Í það minnsta heitir yngri sonurinn Rómeó.

ÞEGAR einhver greindi Víkverja frá því á dögunum að til stæði að setja á laggirnar sjónvarpsstöð á Íslandi sem nær eingöngu endursýndi gamla gamanþætti hló hann að því eins og hverri annarri skrítlu. En hvað er að tarna? Svona sjónvarpsstöð fór í loftið í liðinni viku, Stöð 3. Það sem mönnum dettur ekki í hug.