Þegar birt var ljóð Ólínu Þorvarðardóttur vegna 70 ára afmælis Sunnukórsins, þá duttu niður línubil. Hér birtist ljóðið í réttri útgáfu: Sól, þér helgum sigurlag og syngjum lof af hjarta. Þú breytir hríðar dimmu í dag uns dægrin litum skarta.

Þegar birt var ljóð Ólínu Þorvarðardóttur vegna 70 ára afmælis Sunnukórsins, þá duttu niður línubil. Hér birtist ljóðið í réttri útgáfu:

Sól, þér helgum sigurlag

og syngjum lof af hjarta.

Þú breytir hríðar dimmu í dag

uns dægrin litum skarta.

Já, þiggðu okkar þakkarbrag

þokkagyðjan bjarta.

Þegar vetrar drunginn dvín

og dregur hægt að vori,

Þorri hörfar heim til sín

hrímþungur í spori,

þú feimin yfir fjallsbrún skín

og fyllir brjóstið þori.

Með blíðu kyssir klakatár

af klettsins hrjúfa vanga,

græðir viðkvæm svarðar sár

og sefar kulið stranga.

Þú vekur drauma, vonir, þrár

af vetrarsvefninum langa.

Sól, þér ómar ísfirsk þökk

upp af mjallar hjúpi

og í fuglsins kvaki klökk

kveðin fjalls af gnúpi;

sjötíu ára söngva þökk

- sungin úr bláu Djúpi.

pebl@mbl.is