Tinna Traustadóttir hvetur í pistli á vefritinu Tíkinni til þess að skattar á einstaklinga verði lækkaðir.

Tinna Traustadóttir hvetur í pistli á vefritinu Tíkinni til þess að skattar á einstaklinga verði lækkaðir. "Ef litið er til reynslu annarra landa af því að lækka skatta kemur í ljós að ávinningurinn hefur verið mjög mikill og að allir hafi í raun grætt á þessari tilhögun.

Á eyjunni Mön og Írlandi hefur tekist ótrúlega vel upp með því að lækka skatta. Á Mön hafa skattþrepin verið tvö, 12% og 18% þar sem þeir tekjuhærri hafa greitt 18% skatt en aðrir minna. Hefur þessi skattastefna m.a. leitt til þess að einstaklingar jafnt sem fyrirtæki hafa sótt mjög í að búa og reka starfsemi sína á þessum stöðum. Þannig hafa skatttekjurnar á aukist þrátt fyrir að skattprósentan hafi lækkað sem kann við fyrstu sýn að virðast langsótt. Fyrir um tveimur árum þegar ég var á ferð á eyjunni Mön var staðan þar þannig að ríkissjóðurinn stóð svo vel að ákveðið hafði verið að lækka skatta þar á einstaklinga enn frekar," segir Tinna.

Tinna veltir fyrir sér óheppilegum afleiðingum íþyngjandi skattheimtu. "Talið er að skattsvik séu umfangsmikil hér á landi sem annars staðar þó erfitt sé að áætla hversu miklar skatttekjur fyrir ríkissjóð fari þar forgörðum. Leiða má líkum á því að með því að lækka skatta myndarlega á einstaklinga mætti í leiðinni draga úr skattsvikum. Minni ávinningur er fyrir einstaklinga að svíkja undan skatti ef skattprósentan yrði lækkuð. Það tæki því hreinlega ekki fyrir óprúttna aðila að svíkja lengur undan skatti fyrir ekki hærri upphæðir."

Tinna segir að hér á landi séu aðstæður fyrir hendi til að laða að starfsemi erlendra fyrirtækja, svo fremi sem skattaumhverfið sé hagstætt. "Til þess að einstaklingar og fyrirtæki velti því alvarlega fyrir sér að flytja starfsemi sína til Íslands verður ákveðnum skilyrðum að vera fullnægt. Má þar nefna atriði eins og skýra löggjöf, skilvirka fjármálaþjónustu og öfluga nýtingu á nýjustu tækni. Íslendingar hafa löngum verði þekktir fyrir að tileinka sér nýja tækni hratt og örugglega. Dæmi um það er hversu fljótt landinn var að taka Netið í sína þjónustu en 88,5% heimila á Íslandi hafa í dag aðgang að Netinu sem er mun hærra hlutfall en þekkist annars staðar. Það er til mikils að vinna að hér verði skattar á einstaklinga lækkaðir sem fyrst og mikið gleðiefni hversu víðtæk pólitísk sátt virðist vera um málið," segir Tinna Traustadóttir á Tíkinni.