* HARRY Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, tryggði sér pólska miðherjann Sebastian Olszar, 22 ára, sem mun leika með liðinu út keppnistímabilið.

* HARRY Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, tryggði sér pólska miðherjann Sebastian Olszar, 22 ára, sem mun leika með liðinu út keppnistímabilið. Redknapp þarf á sóknarmanni að halda þar sem Aiyegbeni Yakubu tekur þátt í Afríkukeppninni með landsliði Nígeríu. Olszar, sem hefur þýskt vegabréf, lék með Herold Admira í Austurríki.

* MIKLAR líkur eru á því að enski landsliðsmaðurinn Nicky Butt hjá Manchester United gangi til liðs við Newcastle áður en leikmannamarkaðinum verður lokað 1. febrúar.

*TOTTENHAM er að reyna að fá ítalska miðherjann Andrea Caracciolo hjá Brescia til sín áður en leikmannamarkaðurinn lokast. Tottenham er tilbúið með fjögurra ára samning fyrir Caracciolo sem er 22 ára. Lundúnaliðið vantar miðherja þar sem Freddie Kanoute er fjarri góðu gamni þessa dagana - í Afríkukeppninni.

* ALLT bendir nú til Charlton láti miðvallarleikmanninn Scott Parker fara til Chelsea fyrir 10 milljónir sterlingspund og fái í staðinn Joe Cole lánaðan frá Chelsea út leiktíðina. Alan Curbishley, knattspyrnustjóri Charlton, er ekki yfir sig ánægður með framkomu Parkers, 23 ára, og segir að hann hafi verið með hugann við annað en lið sitt síðustu vikurnar.

* ÞÝSKA liðið Mönchengladbach mun í dag ganga frá lánssamningi við Real Madrid um að varnarmaðurinn Ruben Gonzalez Rocha leiki með liðinu út keppnistímabilið. Holger Fach, þjálfari "Gladbach" sagði í gær, að litlar líkur væri á að Rocha myndi leika með liðinu gegn Köln á morgun.

*FELIX Magath, þjálfari Stuttgart, sem hefur sett stefnuna á þýska meistaratitilinn, er í samningaviðræðum við svissneska liðið Basel um kaup á leikstjórnandanum Hakan Yakin, sem á að vera lykilmaður fyrir aftan sóknarlínu Stuttgart, sem er hættuleg. Yakin yrði þriðji leikmaðurinn sem kæmi til Stuttgart á stuttum tíma, því að það er ekki langt síðan Magath keypti miðherjana Marco Streller og Boris Zivkovic.

* FRANZ Beckenbauer, forseti Bayern München, segir að Bayern sé tilbúið að kaupa tékkneska miðvallarleikmanninn Tomas Rosicky, 22 ára, frá Dortmund næsta sumar, en þess má geta að mörg lið hafa augastað á honum - Chelsea, Liverpool, Juventus og Barcelona. Rosicky, sem lék með Sparta Prag, var á leiðinni til Bayern fyrir þremur árum, en þá nældi Dortmund sér í hann. Dortmund, sem á í fjárhagserfiðleikum, verður að selja nokkra leikmenn á næstunni og er líklegt að Rosicky verði seldur til Bayern.