Christian Zeitz reynir að komast framhjá Spánverjanum Isztvan Pasztor í leik liðanna í gærkvöldi.
Christian Zeitz reynir að komast framhjá Spánverjanum Isztvan Pasztor í leik liðanna í gærkvöldi.
ÞAÐ verða annarsvegar Danir og Þjóðverjar og hins vegar Slóvenar og Króatar, sem leika til undanúrslita á Evrópumótinu í handknattleik, en keppni í milliriðlum lauk í gær.

ÞAÐ verða annarsvegar Danir og Þjóðverjar og hins vegar Slóvenar og Króatar, sem leika til undanúrslita á Evrópumótinu í handknattleik, en keppni í milliriðlum lauk í gær. Þá er ljóst að baráttan um eina lausa sætið fyrir Evrópu á Ólympíuleikunum stendur áfram milli Dana og Slóvena og einnig er ljóst að öll þessi fjögur lið hafa unnið sér sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Túnis snemma á næsta ári. Króatar fara þangað sem heimsmeistarar en hin þrjú unnu sér rétt til að leika þar með frammistöðu sinni á EM í Slóveníu.

Króatar urðu í efsta sæti 1. milliriðils með því að gera jafntefli við Rússa í síðasta leik riðilsins. Fyrr í gær höfðu Danir lagt Svisslendinga örugglega og Svíar unnu Spánverja með einu marki. Króatar vissu því hvað þeir þurftu að gera til að komast áfram, þeir máttu ekki tapa fyrir Rússum með meira en tveimur mörkum því þá hefðu Rússar fylgt Dönum í undanúrslitin. Rússar náðu tveggja marka forystu um tíma og komust í 24:23 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, en leikurinn var mjög jafn. Króatar jöfnuðu þegar ein og hálf mínúta var eftir og Rússum tókst ekki að skora það sem eftir var leiks.

Svíar kræktu sér í einn leik til viðbótar í mótinu þegar þeir lögðu Spánverja 29:28 í jöfnum og spennandi leik þar sem Spánverjar höfðu lengstum frumkvæðið. Svíar náðu þó þriggja marka forystu þegar tvær og hálf mínúta var eftir, þrjú mörk Spánverja á rúmri mínútu gerði lokamínútuna æsispennandi. Ernelind tryggði sigurinn með fínu marki þegar tíu sekúndur voru eftir. Spánverjar þar með farnir heim en Svíar leika um sjöunda sætið við Serba.

Það gæti orðið nokkuð fróðlegur leikur og víst er um að Svíar, sem eru ekki ánægðir með árangur sinn á mótinu, ætla sér sigur, ekki síst vegna þess að þetta verður kveðjuleikur þriggja lykilmanna liðsins. Bengt Johansson, þjálfari, stýrir liðinu í síðasta sinn og þeir Magnus Wislander og Staffan Olsson munu væntanlega hætta líka eftir mótið.

Spánverjar eru gríðarlega óánægðir með árangur sinn og sakna greinilega Talent Dudjebajev í stöðu leikstjórnanda, en hann verður væntanlega með liðinu á Ólympíuleikunum í sumar.

Cesar Argiles, þjálfari Spánverja sagðist sakna þess að geta ekki mætt Svíum á Ólympíuleikunum. "Við lærum alltaf eitthvað af Svíum. Eins og í dag til dæmis, þetta var jafn leikur þar sem reynsla Svía vó þungt í lokin og auðvitað stórkostleg markvarsla Thomasar Svenssons," sagði þjálfarinn.

"Ég reyndi að gefa ungu strákunum meira tækifæri en þeir hafa fengið hingað til," sagði Johansson um leikinn við Spánverja. "Þeir gátu þetta þó ekki einir og sér og það var nauðsynlegt að nota "gömlu" reyndu mennina með þeim til að veita þeim stuðning," sagði Bengt.

Danir voru ekki í vandræðum með Sviss þrátt fyrir að lykilmenn sætu löngum stundum á varamannabekknum. Danir byrjuðu raunar með sitt sterkasta lið en fljótlega var ljóst í hvað stefndi og óreyndari menn fengu gott tækifæri til að reyna sig. Danir hafa leikið vel, eru með mjög fljóta leikmenn og keyra upp hraðann í leiknum, mun meira en nokkurt annað lið í keppninni. Þeir hafa náð langt og eiga aðeins eftir að ná einu þeirra markmiða sem liðið setti sér fyrir mótið, að ná í Ólympíusætið. Til þess gætu þeir hugsanlega þurft að verða Evrópumeistarar.

Engin óvænt úrslit urðu í hinum milliriðlinum og unnust allir þrír leikirnir nokkuð örugglega. Þjóðverjar lögðu Ungverja og tryggðu sér þar með fyrsta sætið og mæta Dönum í undanúrslitum. Heimamenn, sem voru með Íslendingum í riðli, náðu öðru sætinu og mæta heimsmeisturum Króata í hinum undanúrslitaleiknum.

Frakkar enduðu mótið illa, töpuðu tveimur síðustu leikjunum og enduðu í þriðja sæti og leika um fimmta sætið við Rússa.

Þjóðverjar byrjuðu ekki vel gegn Ungverjum í gær en náðu síðan forystunni og létu hana ekki af hendi það sem eftir var.

Fyrirliðinn Daniel Stephan fór fyrir sínum mönnum sem oft áður og Florian Kehrmann átti fínan leik.

"Það er margt sem ég er ánægður með í leik okkar, en annað sem ég er ekki eins ánægður með. Ég er þó ánægðastur með að hafa tryggt sæti á HM í Túnis," sagði Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja, eftir leikinn.