HAMARSMENN úr Hveragerði skelltu sér upp við hlið Hauka í úrvalsdeildinni í körfuknattleik karla, Intersportdeildinni, í gærkvöldi þegar þeir lögðu Breiðablik 85:82 í Hveragerði á sama tíma og ÍR-ingar lögðu Haukamenn 89:76 í Seljaskóla. Leik KR og KFÍ var frestað vegna ófærðar, en Ísfirðingar komust ekki suður.

Boðið var upp á sérkennilegar aðstæður þegar Haukar sóttu ÍR-inga heim í Seljaskóla í gærkvöldi. Stigataflan virkaði ekki sem skyldi og þurftu áhorfendur og leikmenn því að sætta sig við að vera tíma- og skotklukkulausir. Vallarstarfsmenn kölluðu svo upp stigin með reglulegu millibili. Þessar aðstæður virtust falla vel að leik heimamanna sem náðu góðu forskoti seint í öðrum fjórðung, voru tíu stigum yfir í hálfleik, 48:38, og létu ekki deigan síga í þeim síðari - öruggur sigur í höfn, 89:76.

Haukar komust aldrei almennilega í takt við leikinn og bjuggust greinilega ekki við svo mikilli mótspyrnu frá liði ÍR-inga sem vaxið hefur með hverjum leik. Lykilmenn í liði Hauka náðu sér ekki á strik og mikið var um slök skot - af þrjátíu og tveimur reyndum þriggja stiga skotum fóru sex rétta leið.

Eugene Christopher var stigahæstur heimamanna með 23 stig og næstur kom Ómar Örn Sævarsson með 20 stig og 10 fráköst. ÍR-ingar tefldu fram nýjum leikmanni, Maurice Ingram, og skoraði hann fimmtán stig og tók tólf fráköst - missti boltann reyndar nokkuð oft en vantar kannski leikæfingu. Hjá gestunum stóð einn upp úr slöku liði, Michael Manciel skoraði 27 stig.

"Við gerðum það sem lagt var upp með og náðum í tvö dýrmæt stig.

Ingram stóð sig vel, styrkir okkur vissulega í teignum og losar vel um framherjana í sókninni. Þannig að ég er mjög sáttur. Við erum komnir með alla leikmenn heila á ný og erum loks á beinni braut. Sigurinn var okkur nauðsynlegur og við gerðum vel í kvöld," sagði Eggert Maríuson, þjálfari ÍR-liðsins.

Reynir Kristjánsson, þjálfari Hauka, var ekki sáttur, hvort sem var með leikmenn sína eða aðstæðurnar.

"Ég bjóst við erfiðum leik, þeir hafa verið að bæta við sig mannskap og eru á góðu róli. Við hinsvegar vorum ekki tilbúnir í leikinn, vantaði kraft og áræði. Töpuðum aragrúa af boltum og gerðum mikið af ódýrum mistökum. Fengum líka alltof mörg stig á okkur í fyrri hálfleik, það er óafsakanlegt að leyfa þeim að skora næstum fimmtíu stig í einum hálfleik. Þeir eru með stórt lið í teignum og við vorum fullfljótir að skjóta fyrir utan - kannski vegna þess að það vantaði skotklukku," sagði Reynir Kristjánsson.

Hamar lagði Blika

Hamar lagði Breiðablik, 85:82 í Hveragerði í gærkvöldi. Framan af var leikurinn nokkuð jafn en þegar seig á hann, náðu heimamenn um 10 stiga forskoti, sem gestirnir lögðu hart að sér við að minnka eftir það. Undir lokin slökuðu Hamarsmenn á klónni og Blikar hleyptu smá spennu í leikinn þegar þeir minnkuðu muninn í 83:81 þegar um mínúta var eftir, lengra komust þeir hins vegar ekki.

"Við spiluðum þennan leik ágætlega en vorum heldur passífir í lokin, það þýðir ekkert að reyna að halda í 12 stiga forystu og láta það gott heita. Þá kom nýi Kaninn okkar vel út, Lavell Owens. Hann er sterkur í fráköstum, mataði okkur vel og á eftir að auka breidd liðsins til mikilla muna. Ég held samt að það hafi vantað Pétur í lokin til að taka af skarið. Einnig var gaman að sjá til Faheems sem var einn besti maður okkar í kvöld. Við eigum næst við Njarðvík á útivelli, en ég vona bara að þessari lægð sem við vorum í í síðustu tveimur leikjum sé lokið og ég efast ekki um að við séum komnir á beinu brautina," sagði Lárus Jónsson, leikstjórnandi og fyrirliði Hamars, en hann átti mjög góðan leik, skoraði 18 stig og var með 7 stoðsendingar.

Pétur Ingvarsson, þjálfari liðsins lagði skóna á hilluna fyrir leiknum, en það varð hann að gera svo að Hamarsmenn færu ekki yfir launaþak KKÍ með tilkomu nýja Bandaríkjamannsins. Ekki er hægt að segja annað en að hann hafi tekið sig vel út í sparifötunum.

"Við spiluðum lengst af illa í þessum leik, ekki nógu vel til að vinna lið eins og Hamar. Við sýndum hins vegar karakter og gáfumst ekki upp og það skilaði okkur því að við áttum smá möguleika í lokin. Sóknarleikur okkar var stirður og við gerðum of mikið af mistökum og spiluðum ekki saman. Mistök okkar urðu oft til þess að þeir fengu ódýrar körfur og það var aðalmunurinn á þessum liðum í kvöld," sagði Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks eftir leikinn.

Hjá gestunum var Mirko Virijevic þeirra langbesti maður með 26 stig og 12 fráköst. Þá stóð Loftur Einarsson vaktina vel í vörn en varð fyrir því að fara út með 5 villur rétt fyrir leikslok. Hjá Hamar var Lárus þeirra besti maður, og Faheem Nelson náði sér loksins á strik undir körfunni, tók alls 16 fráköst og skoraði 13 stig. Þá áttu þeir Marvin Valdimarsson og Chris Dade einnig góðan dag með sín 17 stig hvor.

Andri Karl skrifar

Höf.: Andri Karl