NORSKIR skólar hafa hvorki getu né vilja til að annast bráðgreinda nemendur, hefur Aftenposten eftir efnafræðiprófessornum Martin Ystnes. Í ljósi eigin reynslu ræður hann foreldrum mjög gáfaðra barna að senda þau í einkaskóla.

NORSKIR skólar hafa hvorki getu né vilja til að annast bráðgreinda nemendur, hefur Aftenposten eftir efnafræðiprófessornum Martin Ystnes. Í ljósi eigin reynslu ræður hann foreldrum mjög gáfaðra barna að senda þau í einkaskóla. Forráðamenn slíkra skóla sjái sér hag í að börnin séu í skólanum og því leggi þeir sig fram um að börnin þrífist vel þar, einnig bráðgreind börn.

Ystnes vísar til rannsókna er gerðar voru í Sviss og Þýskalandi til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að vegna þessa fái a.m.k. 400 börn í hverjum árgangi í Noregi ekki notið þeirra möguleika sem gáfur þeirra raunverulega veiti þeim.

"Í flestum venjulegum skólum er að finna bráðgreind börn. Mörg þeirra uppgötvast aldrei. Verið getur að allt sitt líf finnist þeim að það sé eitthvað að þeim, en að enga hjálp sé að fá. Þvert á móti fá þau svo litla hvatningu að ef maður færi svona með hundinn sinn yrði maður ákærður fyrir að misþyrma honum," segir Ystnes við Aftenposten. Hann er prófessor við Norska náttúruvísindatækniháskólann í Þrándheimi.

Að gera greind börn ánægð

Ystnes kveðst ekki telja að þótt bráðgreind börn séu sett í sérstakan bekk verði þau ófélagslynd. Komist þau í kynni við einhvern sem geti veitt þeim hvatningu fái þau raunhæfari hugmyndir um sjálf sig. Þetta snúist ekki um að auka greind barna, heldur að gera greind börn ánægðari. Aftenposten hefur eftir Ystnes, að til séu rannsóknir er bendi til að fólki með mikla greind sé hættara við ýmsum erfiðleikum en þeim sem séu minna greindir.

Ystnes bendir á, að mörg börn með mikla greind séu oft gífurlega virk. Margir - ekki síst kennararnir - eigi erfitt með að halda í við hvatvísi þeirra og hugsanagang. Slík börn séu oft ranglega greind með athyglisbrest eða Aspergerheilkenni (sem eru væg afbrigði af einhverfu).

Ystnes á sjálfur tvo drengi á grunnskólaaldri, sem báðir hafa mælst vel yfir meðalgreind á hefðbundnu greindarprófi. Segir Ystnes að norsk skólalöggjöf veiti ofurgreindum börnum engan sérstakan stuðning. Það standi beinlínis í lögunum að börn sem geti lært hraðar og meira en meðaltalið geri ráð fyrir skuli ekki njóta sérkennslu. Hann kveðst telja að litið yrði á fordómalausa umræðu um þetta mál sem ógnun við jöfnuðarhugsunarháttinn í norskri menntastefnu.