ÁÆTLAÐ er að ferjan Norræna muni hefja siglingar á ný 20. mars næstkomandi, en nú er unnið að viðgerðum á ferjunni eftir að hún rakst á hafnargarðinn í Þórshöfn fyrr í mánuðinum.

ÁÆTLAÐ er að ferjan Norræna muni hefja siglingar á ný 20. mars næstkomandi, en nú er unnið að viðgerðum á ferjunni eftir að hún rakst á hafnargarðinn í Þórshöfn fyrr í mánuðinum.

Tjónið á skipinu er metið á um 116 milljónir króna, segir Kári Durhuus, fjölmiðlafulltrúi Smyril Line í Færeyjum, auk tekjutaps fyrir Smyril line vegna þess að fella þarf niður siglingar. Fyrirtækið er tryggt fyrir tapinu en þarf að bera nokkra eigináhættu.

Var í fyrstu vetrarsiglingunni

Skipta þarf um blöðin á bakborðsskrúfunni og er áætlað að það taki sjö til átta vikur, auk þess sem gera þarf við skemmdir á skrokk skipsins. Gert var við göt á síðu skipsins til bráðabirgða og var skipinu svo siglt til Hamborgar. Skipið kom þangað á mánudag og var það tekið í slipp hjá skipasmíðastöðinni Blohm og Voss.

Norræna rakst á röð skerja þegar óvæntur vindstrengur lenti á skipinu þegar það var að leggja að bryggju í Þórshöfn 15. janúar sl., þegar hún var að koma úr sinni fyrstu vetrarsiglingu frá Seyðisfirði. Þegar skipstjórinn reyndi að leggja að bryggju öðru sinni rakst skipið á hafnarbakkann og kom annað gat á síðuna.

Áætlað hafði verið að Norræna færi í viðhaldsskoðun síðustu vikuna í apríl en það verður gert meðan á biðinni stendur svo skipið þarf ekki að fara í skoðun í apríl.

Kári segir að gamla ferjan verði notuð áfram á meðan sú nýja er í viðgerð, en útgerðin hafði hug á að selja gömlu ferjuna áður en óhappið varð.