Freydís Jónsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Aðalheiður Héðinsdóttir tóku í gær við viðurkenningum FKA.
Freydís Jónsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Aðalheiður Héðinsdóttir tóku í gær við viðurkenningum FKA.
VIÐURKENNINGU Félags kvenna í atvinnurekstri, FKA, í ár hlaut Aðalheiður Héðinsdóttir sem á og rekur Kaffitár. Hvatningarviðurkenningu FKA hlaut Freydís Jónsdóttir sem á og rekur Gallerí Freydís í Reykjavík.

VIÐURKENNINGU Félags kvenna í atvinnurekstri, FKA, í ár hlaut Aðalheiður Héðinsdóttir sem á og rekur Kaffitár. Hvatningarviðurkenningu FKA hlaut Freydís Jónsdóttir sem á og rekur Gallerí Freydís í Reykjavík. Þakkarviðurkenningu FKA í ár hlaut fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir og fengu þær afhentar viðurkenningarnar í gær.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Aðalheiður stofnaði Kaffitár, ásamt fjölskyldu sinni, árið 1989 þegar hún flutti heim frá Wisconsin í Bandaríkjunum eftir fimm ára dvöl. Þar hafði Aðalheiður komist á bragðið þegar hún sótti sitt fyrsta námskeið í kaffismökkun hjá virtri kaffibúð, sem bauð almenningi upp á að læra að njóta mismunandi kaffitegunda. Í framhaldi lærði Aðalheiður til kaffimeistara hjá Victor Mondy, sem á og rekur fimmtán kaffiverslanir í Wisconsin - en fyrsti kaffibrennsluofn Kaffitárs var einmitt keyptur af Victori fyrir andvirði fjölskyldubílsins sem var seldur áður en fjölskyldan flutti heim árið 1989 og stofnaði Kaffitár.

Í dag starfa tæplega fimmtíu starfsmenn við fyrirtækið.

"Aðalheiður hefur verið mikilvirk í félagsstörfum samfara fyrirtækjarekstrinum. Hún er einn af stofnfélögum "Specialty Coffee Association of Europe", hefur verið félagi í "Specialty Coffee Association of America" í tíu ár, er stofnfélagi í Félagi kvenna í atvinnurekstri þar sem hún gegndi stjórnarstörfum þar til á síðasta aðalfundi og verið meðlimur í Netinu, samskiptaneti kvenna í atvinnulífinu, frá upphafi," að því er segir í tilkynningu.

Sundföt í öllum stærðum

Freydís lærði fatahönnun í The Art Institute of Fort Lauderdale í Bandaríkjunum og útskrifaðist vorið 1996. Meðfram náminu vann hún hjá fyrirtæki sem saumaði og seldi sundfatnað í stórum og litlum stærðum og þar lærði hún allt um saumaskap og frágang á sundfatnaði sem hún segir að lúti allt öðrum lögmálum en venjulegur fatnaður. Freydís starfaði í Bandaríkjunum næstu fjögur árin en flutti til Íslands haustið 2000. Í fréttatilkynningu segir að fljótlega eftir heimkomuna hafi Freydís stofnað galleríið sitt sem sérhæfir sig í undirfatnaði og sundfatnaði fyrir konur. Í galleríinu er seld tilbúin vara, auk þess sem Freydís selur sérhannaðan fatnað. Einnig hannar Freydís flísfatnað fyrir börn frá 0-12 ára og sérhæfir sig í flíshúfum, auk þess að vera með ungbarnasundgalla og sundskýlur.

Fulltrúi íslensku þjóðarinnar

Vigdís gegndi forsetaembættinu í sextán ár, frá 1980 til 1996. Á þeim tíma vann hún ötullega að því að kynna land og þjóð um allan heim - og auk þess að vera fulltrúi íslensku þjóðarinnar var hún ekki síður fulltrúi hinnar íslensku konu, að því er segir í tilkynningu.

"Þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands má segja að jafnréttisbarátta kvenna hafi rétt verið búin að slíta barnsskónum og tími til kominn að ákveða hvert skyldi stefna. Kjör Vigdísar sýndi, svo ekki varð um villst, að konum væri allt mögulegt - og að hægt væri að taka heiminn með áhlaupi. Enda voru stór skref stigin næsta áratuginn og ríflega það.

Vigdís Finnbogadóttir hefur hlotið heiðursnafnbót við sextán háskóla, í Frakklandi, Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Finnlandi, Japan og á Íslandi, fyrir störf sín í þágu menningar, tækni og vísinda, umhverfismála, tungumála, ungmenna, velferðarmála og málefna kvenna," að því er segir í tilkynningu.

FKA-viðurkenningin er nú afhent í fimmta sinn. Markmiðið með henni er að heiðra einstakling, fyrirtæki, stofnun, félagasamtök eða stjórnvald sem að mati stjórnar félagsins er best að viðurkenningu kominn fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða hefur verið konum í atvinnurekstri sérstök hvatning eða fyrirmynd.