NÝTT félag skipstjórnarmanna lýsir undrun sinni á yfirlýsingum fjármálaráðherra og ýmissa annarra stjórnmálamanna undanfarið varðandi afnám sjónannaafsláttar. Ályktun þess efnis var samþykkt á stofnfundi félagsins um helgina.

NÝTT félag skipstjórnarmanna lýsir undrun sinni á yfirlýsingum fjármálaráðherra og ýmissa annarra stjórnmálamanna undanfarið varðandi afnám sjónannaafsláttar. Ályktun þess efnis var samþykkt á stofnfundi félagsins um helgina. Þar segir meðal annars: "Í tímans rás hefur sjómannaafslátturinn tekið breytingum og í hvert sinn sem það hefur átt sér stað hafa þær breytingar orðið í samskiptum sjómanna og stjórnvalda á hverjum tíma. Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp var sjómannaafsláttur 12% af launum, en var þá skertur mjög verulega og ákveðinn sem krónutala fyrir hvern lögskráningardag. Sú skerðing var að sjálfsögðu einnig ákveðin af stjórnvöldum. Útgerðarmenn eða samtök þeirra hafa aldrei tekið þátt í ákvörðunum um sjómannaafslátt. Það er því út í hött að halda því fram að sjómenn og útgerðir eigi að semja um kjarabætur í stað sjómannaafsláttar. Sjómenn og útgerðarmenn hafa næg ágreiningsefni til að takast á um, þótt stjórnvöld úthluti þeim ekki viðbótarverkefnum.

Fundurinn skorar því á Alþingi Íslendinga sem ákvað sjómannaafslátt á sínum tíma að vísa öllum hugmyndum um afnám hans út í hafsauga."