AFLAVERÐMÆTI íslenskra skipa af öllum miðum á fyrstu tíu mánuðum ársins 2003 nam 57,1 milljarði króna en á sama tímabili ársins 2002 var verðmætið 66,7 milljarðar króna og er þetta samdráttur um 9,5 milljarða króna eða 14,3%, að því er fram kemur í tölum...

AFLAVERÐMÆTI íslenskra skipa af öllum miðum á fyrstu tíu mánuðum ársins 2003 nam 57,1 milljarði króna en á sama tímabili ársins 2002 var verðmætið 66,7 milljarðar króna og er þetta samdráttur um 9,5 milljarða króna eða 14,3%, að því er fram kemur í tölum Hagstofu Íslands.

Verðmæti botnfiskaflans á sama tímabili var 38 milljarðar króna samanborið við 42,8 milljarða króna á árinu 2002. Af verðmæti einstakra botnfisktegunda þá var verðmæti þorsks 21,4 milljarðar en var 23,6 milljarðar á árinu 2002. Verðmæti ýsuafla dróst saman um tæpan milljarð króna og verðmæti karfaafla um nærri 1.200 milljónir króna. Verðmæti uppsjávarafla var 10,5 milljarðar króna á fyrstu tíu mánuðum ársins 2003 en á árinu 2002 var verðmætið 14,1 milljarður króna. Verðmæti loðnuafla minnkaði um 3,3 milljarða króna, verðmæti síldarafla minnkaði um 930 milljónir króna en verðmæti kolmunnaaflans jókst um 575 milljónir króna.

17% samdráttur í sjófrystingu

Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var á tímabilinu 26,8 milljarðar samanborið við 31 milljarð á árinu 2002 og er það 13,5% samdráttur. Verðmæti sjófrysts afla var 16,6 milljarðar króna en nam tæpum 20 milljörðum króna á árinu 2002 sem er samdráttur um 16,9%. Verðmæti afla sem landað var á innlenda fiskmarkaði til vinnslu innanlands dróst saman um 19,1%, var 8,1 milljarður á árinu 2003 en samanborið við 10 milljarða króna á sama tímabili árið 2002.

Á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra var unnið úr mestum aflaverðmætum eða fyrir um 9 milljarða króna en á höfuðborgarsvæðinu var unnið úr afla að verðmæti 8,5 milljarða króna og fyrir 8 milljarða króna á Austurlandi. Hlutfallslega varð mestur samdráttur í aflaverðmætum verkaðs afla á Vestfjörðum eða 20,1%. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2003 nam það 3,9 milljörðum króna en var 4,9 milljarðar króna á sama tímabili á árinu 2002.

Útflutningsverðmæti dróst saman um 15 milljarða króna

Útflutningsverðmæti sjávarafurða janúar til nóvember 2003 dróst saman um tæpa 15 milljarða króna frá sama tímabili árið áður, samkvæmt vefriti fjármálaráðuneytisins. Þetta samsvarar 12,5% samdrætti en vöruútflutningur í heild dróst saman um 11%. Meginskýringar þessa eru þrjár; styrking krónunnar, minni útflutningsframleiðsla og lægra afurðaverð erlendis.

Af þessum þremur þáttum er það styrking krónunnar sem vegur þyngst en krónan styrktist um 7% milli þessara tímabila ef miðað er við gengisskráningarvog. Gengi krónunnar gagnvart dollara, pundi og evru hefur þróast nokkuð misjafnlega. Þannig hefur meðalgengi Bandaríkjadollars árið 2003 lækkað um 16% frá meðalgengi ársins 2002, pundið um tæp 9% en evran aftur á móti haldið sínum styrk.

Verðvísitala sjávarafurða í íslenskum krónum fyrstu ellefu mánuði ársins 2003 lækkaði um rúm 9% frá sama tímabili árið áður og lýsir það styrkingu krónunnar en einnig hafa breytingar á samsetningu vinnslutegunda áhrif á vísitöluna svo og verðbreytingar erlendis.