Amon Amarth.
Amon Amarth.
FYRSTU helgina í mars verður haldin sannkölluð þungarokksveisla í Reykjavík, í sem víðustum skilningi þess orðs.

FYRSTU helgina í mars verður haldin sannkölluð þungarokksveisla í Reykjavík, í sem víðustum skilningi þess orðs. Það er Þorsteinn Kolbeinsson, hjá Restingmind Concerts, sem stendur að hingaðkomu sænsku víkingarokksveitarinnar Amon Amarth sem mun leika á tvennum tónleikum 5. og 6. mars. Ekki nóg með það heldur koma hingað fulltrúar frá sex þungarokksblöðum, hvorki meira né minna, en einnig starfsmenn frá Metal Blade-útgáfunni, sem er ein sú stærsta á þungarokkssviðinu, gefur út Amon Amarth en einnig sveitir eins og Cannibal Corpse, Bolt Thrower, Manowar, Paradise Lost og gaf fyrirtækið t.d. út fyrstu plötur Slayer.

Blöðin sem hingað koma eru Rock Hard (þýska og franska útgáfan), Close Up (Svíþjóð), Metal Hammer (ítalska útgáfan), Aardschok (Holland) og Terrorizer frá Bretlandi, sem er málgagn nr. 1 hvað þunga-þungarokk varðar.

Haldnir verða tvennir tónleikar með Amon Amarth. Hinir fyrri verða föstudaginn 5. mars á Grand Rokk og þeir seinni 6. mars í Tónlistarþróunarmiðstöðinni á Granda.

Á fyrri tónleikunum sjá Brain Police, Changer og Múspell um upphitun en á þeim síðari eru það Andlát, Dark Harvest og Sólstafir. Ekkert aldurstakmark er á seinni tónleikana.

Aðgangseyrir verður 1.200 krónur á hvort kvöld.