Palestínufararnir ungu vilja segja frá því hvernig ástandið á hernumdu svæðunum er. Frá vinstri má sjá Svein Rúnar Hauksson, formann félagsins Ísland-Palestína, Sverri Þórðarson, Axel Wilhelm Einarsson, Þorstein Otta Jónsson, Árna Frey Árnason og Sögu Ásge
Palestínufararnir ungu vilja segja frá því hvernig ástandið á hernumdu svæðunum er. Frá vinstri má sjá Svein Rúnar Hauksson, formann félagsins Ísland-Palestína, Sverri Þórðarson, Axel Wilhelm Einarsson, Þorstein Otta Jónsson, Árna Frey Árnason og Sögu Ásge
"ÉG er langt í frá sami maðurinn og ég var áður en ég fór út.

"ÉG er langt í frá sami maðurinn og ég var áður en ég fór út. Á þessum tveimur vikum lærði maður svo mikið og ég er kominn með allt annað viðhorf á lífið," segir Þorsteinn Otti Jónsson, en hann er nýkominn heim til Íslands eftir að hafa starfað á hernumdu svæðunum í Palestínu á vegum samtakanna Ísland-Palestína. Átta Íslendingar hafa á síðustu vikum og mánuðum dvalið þar og deildu þeir reynslu sinni með fréttamönnum í gær.

Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins, segir að það hafi ekki síst verið tilgangurinn með því að senda fólk til Palestínu að Íslendingar upplifi ástandið af eigin raun og geti deilt upplifuninni eftir heimkomuna. Íslendingarnir dvöldu allt upp í fjórar vikur í Palestínu, störfuðu með sjálfboðaliðasamtökum og tóku m.a. þátt í mótmælaaðgerðum.

Aðspurð hvað hefði orðið til þess að þau voru tilbúin til að leggja líf og limi í hættu til að leggja málstað Palestínumanna lið sagði Finnbogi Vikar Guðmundsson sjómaður ástæðuna vera ríka réttlætiskennd. "Maður er búin að fylgjast með þessu í fréttunum, en sér síðan að ástandið er verra en maður gerir sér grein fyrir," sagði Finnbogi Vikar. Segir hann deilu Palestínumanna og Ísraela einkum særa réttlætiskenndina þar sem Ísraelar njóti stuðnings valdamesta lands heims, Bandaríkjanna. Steinunn Gunnlaugsdóttir segir að hún hafi verið að fylgja hjartanu sínu. "Maður getur ekki setið á rassgatinu og verið reiður yfir fréttunum endalaust," segir hún.

Sögðu Palestínufararnir ungu að þeim hefði verið vel tekið af heimamönnum, fólk hefði verið ánægt með að einhverjir sýndu eymd Palestínumanna áhuga. "Þeim fannst mjög mikilvægt að við sæjum það sem er að gerast þarna. Eins að við skulum sitja hér og tala í dag. Þau vilja að heimurinn heyri hvað er að gerast. Margir töluðu um að heimurinn væri löngu búinn að gleyma þeim," sagði Árni Freyr Árnason.

Öll heyrðu þau af mikilli eymd. Saga sagði marga karlmenn sem hún talaði við hafa setið í fangelsi, einn hafði setið inni í sex og hálft ár fyrir að henda grjóti og annar hafði verið fangelsaður fyrir að hýsa alþjóðlegt fólk sem tók þátt í mótmælum. "Það er ótrúlegt hvað fólk þarf að þola til að lifa eðlilegu lífi, að fólk þurfi að ganga það langt að leggja sig í lífshættu til að mennta sig og til að hitta fjölskylduna sína," segir Saga.

Líta frelsið öðrum augum

Aðspurð hvaða lærdóm þau hafi dregið af dvölinni segja þau vandamálin á Íslandi smávægileg í samanburði við Palestínu. "Mér líður illa þegar ég skrúfa frá of miklu af vatni núna. Ég get ekki tannburstað mig og látið vatnið renna eins og ég gerði, ég sturta ekki tvisvar niður og nota ekki rafmagn sem ég þarf ekki á að halda. Mér líður bara þannig, ég finn fyrir sektarkennd ef ég eyði einhverju að óþörfu miðað við það sem við upplifðum þarna. Þegar við vorum að vaska upp heima hjá fólki gat maður talið dropana sem voru notaðir á einn disk," segir Þorsteinn.

Sverrir Þórðarson segir að einnig líti hann nú á frelsið, sem fólk búi við á Íslandi en sem Palestínumenn njóti ekki, á annan hátt. "Þetta á við um allt daglegt líf, skóla, bíó, fjölskyldu, heilbrigðiskerfið. Allt þetta finnst okkur sjálfsagt," segir hann. "Það er eins og Vesturlandabúar séu ekki meðvitaðir um hversu ótrúlega lukkulegir þeir eru. Hvað við erum t.d. ótrúlega heppin að hafa fæðst hérna á Íslandi," segir Saga.

Sverrir segist hafa rekið sig á það að Íslendingar séu oft fordómafullir í garð Palestínumanna. "Fólk spyr hvað hafi eiginlega gengið að manni að hafa farið þarna. Að þetta sé bara illa upp alið fólk sem vilji drepa hvíta manninn við hvert tækifæri. Þetta voru bændur og friðsamt fólk sem við hittum, sem býr í litlum sveitabæjum og átti engan pening."