Hér er skoðað með vísindalegri nákvæmni hvort tennur og bit tófunnar geti passað við sárin á ánum.
Hér er skoðað með vísindalegri nákvæmni hvort tennur og bit tófunnar geti passað við sárin á ánum.
Dýrbíturinn sem bitið hafði og sært ær í Hlíðarendakoti var felldur í fyrrinótt. Reyndist bíræfin, alhvít tófa hafa verið á ferðinni.

Dýrbíturinn sem bitið hafði og sært ær í Hlíðarendakoti var felldur í fyrrinótt. Reyndist bíræfin, alhvít tófa hafa verið á ferðinni.

Eins og sagt var frá í blaðinu í gær var ákveðið að vaka yfir ánum í fjárhúsunum í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð til að reyna að komast að því hvaða skepna hefði verið að bíta og særa ærnar næturnar áður. Þeir Sigurður Ásgeirsson í Gunnarsholti og Kristinn Sigurðsson í Mörk, tófu- og minkabanar, tóku það að sér og komu sér fyrir inni í fjárhúsunum og biðu átekta fram á nótt.

Einnig höfðu þeir meðferðis 2 hreyfiskynjara til þess að skynja hreyfingu fyrir utan húsin og vera viðbúnir ef þeir gæfu merki. Um tvöleytið um nóttina gaf skynjarinn til kynna að eitthvað væri á kreiki fyrir utan fjárhúsin. Þeir biðu átekta en ekkert gerðist frekar um stund.

Skömmu síðar tók Sigurður eftir að eitthvað skaust um hlaðið en greindi ekki hvað það var. Um fjögurleytið um nóttina fór skynjarinn aftur í gang og fóru þeir félagarnir þá út fyrir með sterkan ljóskastara og tókst að festa í ljósgeislann hvíta tófu sem hljóp upp hlíðina fyrir ofan bæinn.

Sigurður gaggaði þá á hana og hún snarstansaði. Kom hann þá skoti á hana með riffli af um 200 metra færi og valt hún eitthvað niður hlíðina og misstu þeir af henni í myrkrinu. Við svo búið fóru þeir félagar heim en þegar var orðið vel bjart um morguninn fór Guðrún Stefánsdóttir, bóndi að Hlíðarendakoti, að huga að tófunni og fann hana steindauða niðri á jafnsléttu skammt frá bænum.

Bíræfin með afbrigðum

Sigurður Ásgeirsson, sem hefur stundað refaveiðar í 53 ár, sagði að hann hefði aldrei getað ímyndað sér að villt tófa gerðist svo bíræfin að fara inn í fjárhús nótt eftir nótt þar sem er ljós, viftur í gangi og útvarpið á. Þar að auki virtist hún vel haldin og ekki horuð eða hungruð, en virtist bara hafa þörf fyrir að blóðga bráðina en ekki að bana henni eða éta.

Sigurður sagði þetta vera unga læðu, kannski 2-3ja ára, og var hún alhvít og ekkert sem bendir til að þetta sé búrrefur sem hafi sloppið. Sagði Sigurður að svo virtist sem refum væri að fækka inni á hálendinu en fjölga þónokkuð nærri byggð. Árni Jónsson, bóndi í Hlíðarendakoti, telur skaðlegt hvað ríkisvaldið hafi dregið úr fjárveitingum til refaveiða og tók Sigurður undir það. Mjög misjafnt er hvað sveitarfélög leggja mikla fjármuni til þessara hluta. Tófan verður send til rannsóknar hjá Líffræðistofnun Háskóla Íslands þar sem Páll Hersteinsson, doktor og sérfræðingur í íslenska refastofninum, mun taka hana til gagngerrar skoðunar.

Hellu. Morgunblaðið.