SKATTSKYLDAR atvinnutekjur einstaklinga jukust um 50% á fimm árum, frá 1997 til 2002.

SKATTSKYLDAR atvinnutekjur einstaklinga jukust um 50% á fimm árum, frá 1997 til 2002. Námu þessar tekjur rúmum 405 milljörðum króna síðasta árið og öfluðu einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu rúmlega 262 milljarða, eða 65% af heildaratvinnutekjum á landinu, en 142 milljarða króna var aflað utan höfuðborgarsvæðisins.

Hagstofa Íslands birti í gær í fyrsta skipti tölur um atvinnutekjur í aðalstarfi sem byggðar eru á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskyld laun. Þar kemur m.a. fram að meðalatvinnutekjur á mann voru 2,5 milljónir króna árið 2002 og höfðu hækkað um 39% frá 1998. Á þessum fimm árum hækkaði neysluverðsvísitalan hins vegar um rúmt 21%. Kaupmáttur þessara tekna jókst því um 14%.

Mikill munur er á atvinnutekjum karla og kvenna samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Að meðaltali voru konur með 60% af atvinnutekjum karla árið 2002 en 57% árið 1998. Utan höfuðborgarsvæðisins voru atvinnutekjur kvenna 55% af atvinnutekjum karla árið 2002 samanborið við 63% á höfuðborgarsvæðinu.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra segir óumdeilt að óútskýrður munur sé á launum karla og kvenna sem allir ættu að vera sammála um að ráðast gegn með öllum tiltækum ráðum. Hann segir að í þessari samantekt Hagstofunnar sé ekki tekið tillit til fjölda vinnustunda að baki laununum, sem skýrir þennan mun að einhverju leyti.

Meiri launahækkun kvenna

"Athuganir kjararannsóknanefndar hafa sýnt að allt síðastliðið ár var viðvarandi meiri launahækkun meðal kvenna en karla," segir Árni. "Það er mjög ánægjuleg þróun. Það er líka fyrsta heila árið sem fæðingar- og foreldraorlofslögin eru að fullu í gildi. Ég bind því vonir við að þetta sé til marks um það, að við erum á réttri leið og þau lög séu að skila þeim árangri sem vonast var til."

Atvinnutekjur eru hæstar um miðbik starfsævinnar þegar fólk er á aldrinum 35-54 ára. Árið 2002 voru atvinnutekjur fólks á þessum aldri að meðaltali um 3 milljónir króna. Atvinnutekjur karla voru þó mun hærri en kvenna, 3,8 milljónir króna hjá körlum borið saman við 2,2 milljónir króna hjá konum. Minnstur var munurinn í landbúnaði en mestur í sjávarútvegi.

Félagsmálaráðherra ætlar að leggja fram á þessu vorþingi nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. "Launamunur kynjanna er eitt af stóru málunum sem ég legg til að við tökumst á við á næstu árum," segir Árni. Jafnframt hafi verið lögð áhersla á þennan þátt í norrænu samstarfi þar sem Ísland gegni nú formennsku.