Voltaire að kenna fjallar um samslátt ólíkra menningarheima í Frakklandi.
Voltaire að kenna fjallar um samslátt ólíkra menningarheima í Frakklandi.
Leikstjóri: Abdel Kechiche. Aðalleikendur: Sami Bouajila, Elodie Bouchez, Aure Atika, Bruno Lochet, Virginie Darmon, Olivier Loustau, Mustapha Adovani, François Gentil, Sami Zitouni, Carole Franck. 2000.

JALLEL (Sami Bouajila), er ungur, allslaus en vongóður Marokkóbúi sem kemur á ólöglegan hátt inn til Frakklands. Að ráði frænda sinna skrökvar hann að starfsmönnum innflytjendaeftirlitsins að hann sé Alsírbúi og fær út á það tímabundið landvistarleyfi og pappíra. Þar með hefst misleit dvöl Jallels í höfuðborg lands "frelsis og jafnréttis. Sú París sem verður umhverfi þessa geðuga araba er ekki sú sem blasir við ferðamönnum eða er kunnugleg af póstkortum og ferðabæklingum. París Jallels er athvörf félagsmálastofnanna, geðsjúkrahús og sjúskaðar hótelkytrur. Félagsskapurinn menn í svipuðum sporum og hann, vegalausir Norður-Afríkubúar, annarrar kynslóðar innflytjendur og franskt utangarðsfólk sem á lánleysið sameiginlegt og ýmsa persónulega hnökra sem eru því fjötur um fót í sanfélaginu.

Áður en langt um líður er Jallel rændur vegabréfi og peningum og verður að bjarga sér upp frá því á lánspappírum. Hann kynnist stúlku sem býðst til að giftast honum fyrir dálitla peningasummu og koma þannig landvistarmálunum í höfn. Konan svíkur hann, Jallel brotnar saman og er lagður inn á geðsjúkrahús þar sem hann kynnist m.a. hinni undarlegu Lucie (Elodie Bouchez), sem er óspör á blíðu sína gegn vægu gjaldi. Hún eltir Jallel er hann útskrifast.

Áfram heldur lífsbarátta hins landlausa sem nú er kominn með kvenmann á framfæri. Hann selur ávexti og blóm og ástandið gæti verið verra þegar ógæfan skellur á.

Myndin er frumraun leikstjórans Abdel Kechiche, sem var verðlaunaður fyrir á Feneyjahátíðinni árið 2000. Það kemur sannarlega ekki á óvart því Voltaire að kenna er athyglisverð og að ýmsu leyti trúverðug lýsing á mannlífi meðal dreggja þjóðfélagsins, gerð af virðingu og skilningi á kjörum og getu einstaklinga sem eiga af ýmsum ástæðum riga nánast enga aðra kosti en þrauka af daginn. Sami Bouajila er bæði magnaður leikari og hlýr og bjartur persónuleiki, sem á ríkan þátt í að gera Voltaire að kenna, svo grípandi og áleitna sem raun ber vitni. Hún er hvort tveggja, lýsing á kröppum kjörum á jaðri þjóðfélagsins og um leið minnisstæð skoðun á hópi hornreka þar sem samkenndin ræður. Jallel verður virðingarverð persóna í höndum Bouajila, maður sem gætir jafnan sóma síns og sinna þótt kalt blási í fangið. Elodie Bouchez (Stormviðri), vinnur einnig glæsilegan leiksigur í sannfærandi og seiðmagnaðri túlkun hinnar smáskrýtnu Lucie. Talandinn, svipbrigðin og allt yfirbragðið gera persónuna þá minnisstæðustu í þeirri sérstæðu (og vel leiknu), mannlífsflóru sem ber fyrir augu í Voltaire að kenna. Mynd sem snýst meira um þrá einstaklingsins eftir að geta bjargað sér og staðið uppréttur á eigin fótum, en nokkuð annað.

Sæbjörn Valdimarsson