Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra hefur skipað sérstaka nefnd til þess að fjalla um íslenzkt viðskiptaumhverfi.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra hefur skipað sérstaka nefnd til þess að fjalla um íslenzkt viðskiptaumhverfi. Í fréttatilkynningu, sem ráðherrann sendi frá sér í fyrradag, segir að miklar breytingar hafi orðið í viðskiptalífinu hér á undanförnum árum, sem m.a. megi rekja til afnáms hafta á fjármálamarkaði, EES-samningsins, einkavæðingar ríkisfyrirtækja og skilvirkara regluverks og mótunar verðbréfamarkaðar.

Síðan segir:

"Engum vafa er undirorpið að þessar breytingar hafa leitt til betri lífskjara þjóðarinnar. Aukin hagræðing og hraðar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa hins vegar leitt til meiri samþjöppunar og minni samkeppni í einstökum atvinnugreinum. Þá hafa ýmis viðskipti á verðbréfamarkaði vakið upp spurningar um, hvort stjórnunarhættir hlutafélaga séu með þeim hætti, sem best gerist. Einnig hefur mikil umræða verið um þróun regluverks og opinbers eftirlits með viðskiptalífinu."

Hér er um að ræða mjög mikilvæga nefndarskipan. Nefnd þessi starfar undir forystu Gylfa Magnússonar, dósents við Háskóla Íslands, og á að ljúka störfum eigi síðar en 1. september nk.

Þau málefni sem nefnd viðskiptaráðherra á að fjalla um hafa mjög verið til umræðu á undanförnum vikum og mánuðum. Skipun nefndarinnar sýnir að mikil alvara er á ferðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Athyglisvert er í þessu sambandi, að á aðalfundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, á morgun, laugardag, verður efnt til sérstakra umræðna um efnið: "Þarf lög um uppbrot og myndun hringa í viðskiptum."

Sú staðreynd ein að lykilsamtök innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík standa fyrir slíkum umræðum sýnir hver hugur fylgir máli.

Hið æskilega er auðvitað að aðilar viðskiptalífsins kunni sér hóf og setji sér sjálfir þau takmörk, sem heilbrigð skynsemi segir fólki að séu við hæfi. Dugi það ekki til er ekki um annað að ræða en lagasetningu. Reynslan sýnir, að þegar örfáir aðilar eru búnir að ná tökum á litlum hagkerfum beina þeir fjármagni sínu ekki inn í þau hagkerfi heldur í aðrar áttir og lama þar með vöxt þeirra, sem þeir upphaflega störfuðu í. Það er engin ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að láta slíkt gerast hér.