Laugardalur | Áform eru uppi um að veita sjó frá ströndinni við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar og þaðan inn í Laugardal um neðanjarðarlagnir.

Laugardalur | Áform eru uppi um að veita sjó frá ströndinni við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar og þaðan inn í Laugardal um neðanjarðarlagnir. Nota á sjóinn í þar til gerða heilsupotta við Laugardalslaugina sem og fyrir Húsdýragarðinn þannig að selir geti synt í "alvöru" söltum sjó.

Að sögn Ásgeirs Margeirssonar, aðstoðarforstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, er borun vegna þessarar sjóveitu lokið niður við Sæbraut og stefnt að frekari framkvæmdum næsta vetur meðfram endurnýjun á götum á svæðinu.

Hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum hafa menn nokkrar væntingar vegna nýtingar hreins og gerlalauss sjávar til að bæta aðstöðu selanna og gera umhverfi þeirra náttúrulegra. Tómas Ó. Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldu og Húsdýragarðsins, "Það er verið að bora og leggja lagnirnar, þannig að þetta er allt að koma. Framkvæmdin er á vegum orkuveitunnar, en við búumst við því að þetta verði tilbúið með vorinu. Þetta opnar líka fyrir möguleika á sjávardýrasafni hér," segir Tómas og bætir við að stjórn garðsins sé einhuga um að fá sjávardýrasafn í garðinn með helstu nytjafiskum við Íslandsstrendur.

Erlingur Jóhannsson, íþróttafulltrúi hjá ÍTR segir menn þar á bæ vera að safna að sér ýmsum hugmyndum um nýtingu sjávarins. "Þetta er efni sem er að koma inn á borð til okkar núna. Ætlunin er að dæla þessu vatni upp í Húsdýragarðinn. Það hafa líka komið upp hugmyndir um að Laugardalslaugin nýti þetta vatn í heilsupotta, en það er framtíðarmúsik um framtíðarskipulag laugarinnar. Ég tel það víst að við eigum eftir að sækjast eftir hluta af þessum sjó fyrir Laugardalslaugina til að gefa möguleika á söltu sjóbaði í framtíðinni."