Guðmundur Kristmundsson, Örn Magnússon, Sigurður og Hildigunnur Halldórsbörn og Sigurlaug Eðvaldsdóttir.
Guðmundur Kristmundsson, Örn Magnússon, Sigurður og Hildigunnur Halldórsbörn og Sigurlaug Eðvaldsdóttir.
Norsk kórlög eftir m.a. Nystedt, Grieg og Kvandal. Stavanger Vocalensemble u. stj. Jørns Snorre Andersen. Laugardaginn 24. janúar kl. 13.

Í TILEFNI myndlistarsýningar norsku veflistarkonunnar Siri Gjesdal í Norræna húsinu hélt Stavanger Vocalensemble frá Rogalandi stutta hádegistónleika sl. laugardag á sama stað. Þar eð kórinn kom að sögn hingað með örskömmum fyrirvara, var engin prentuð tónlistarskrá tiltæk, heldur kynnti kórstjórinn dagskráratriðin. Munnlegum kynningum, ekki sízt á erlendu máli, fylgja þeir alkunnu ókostir að ekki kemst allt jafnvel til skila, og verða því eftirfarandi höfundanöfn og verkheiti að sæta fyrirvara um mögulega misheyrn.

Kammerkórinn var í upplýsingaplaggi sagður 24 manna, og því ljóst að hann hafi mætt við hálfan liðstyrk, þar eð söngvarar voru aðeins 12 manns; raunar litlu færri en hlustendur. Á móti glöddu litríku rygsku þjóðbúningarnir óneitanlega augað. Uppstillingin var að því leyti óvenjuleg að röddum var raðað S-B-T-A frá vinstri til hægri með karla fyrir miðju. Fjarlægðin milli sóprans og alts gerði þannig að verkum að kvenraddir blönduðust verr en karlaraddir, og var það að því leyti bagalegra sem einn sópraninn var mun raddsterkari en hinir tveir, jafnvel þótt söngröddin væri í sjálfu sér bráðfalleg (að blæ ekki ólík Gondulu Janowitz upp á sitt bezta), eins og vel mátti heyra í 7. atriði þar sem konan söng einsöng.

Meðal þeirra viðfangsefna sem greindust í kynningu má nefna tvö þegar klassísk kórverk eftir Knut Nystedt, Laudate og Peace, I leave with you. Negrasálmurinn I will greatly rejoice var frísklegur og gæddur óvenjulegum taktskiptum. Norska þjóðlagið Pål sine høns (Palli var úti með hænsnum í haga) var kraftmikið og kryddað jojk-kenndu viðlagstralli. Hið alkunna Våren eftir Grieg var við hæfi dúnblítt, þó að heyrast hefði mátt meir í sópran 2 & 3. Síðast söng kórinn Finasta jenta eftir Johan Kvandal undir glaðlega skoppandi Halling-hrynjandi; þjóðlegt og tært í senn.

Hljómur kórsins var stöku sinni ofurlítið hráslagalegur í karlröddum á forte, en að öðru leyti vel tónhreinn, samtaka og jafn í styrk. Trúlega hefði hann getað hljómað enn samfelldar í hefðbundnari uppstillingu - einkum miðað við nálægð litla salarins er hér um ræðir. Hins vegar skorti greinilega hvorki fágun, kraft né sönggleði undir auðsærri fagmannlegri stjórn Andersens.

Tveir miklir Rússar

Tryggir hlustendur Kammermúsíkklúbbsins fylltu nærri því Bústaðakirkju eina ferðina enn á sunnudagskvöld. Þó mun sá galli á gjöf Njarðar hvað líkamar áhugasamra áheyrenda deyfa ómun hússins. Hljóta margir að hafa velt fyrir sér hvort ekki mætti draga úr þeim annmarka með því einfaldlega að fjarlægja teppi guðshússins, a.m.k. að hluta.

Tvö rússnesk stórtónskáld voru á boðstólum á tónleikum Camerarcticu þetta kvöld. Efstur á blaði var Dmitri Sjostakovitsj með Strengjakvartett nr. 8 í c-moll frá 1960. Þetta er einn þekktasti hinna fimmtán strokkvartetta sovézka meistarans, sem auk Bela Bartóks (og hugsanlega Vagns Holmboes) lagði bitastæðast í sjóð drottningar kammertóngreina á 20. öld. Kvartettinn var að sögn tónleikaskrárritara (sem að ósekju hefði mátt fjalla aðeins meir um sjálft verkið) saminn í listaborginni Dresden 1960, fórnarlambi einhverrar hörkulegustu og tilgangslausustu loftárásar í allri seinni heimsstyrjöld rétt fyrir stríðslok, og því mótaður af skiljanlegum viðbjóði á tæknivæddri grimmd mannskepnunnar.

Til marks um persónulega afstöðu höfundar er stefjaefni verksins frá byrjun til enda gegnsýrt tónrænu fangamarki hans D-Es-C-H (= D. Sch[ostakowitsch]). Fimmþætt verkið er að mörgu leyti sérkennilegt, m.a. fyrir þrjá largo-þætti, og hefur löngum þótt fyrirmyndardæmi um magnaðan áhrifamátt innblásins einfaldleika.

Camerarctica fjórmenningar léku þetta hnitmiðaða snilldarverk af músíkalskri innlifun, þótt flutningurinn væri heldur í varfærnara lagi og með vaðið fyrir neðan sig í hraðavali II. og III. þáttar (Allegro molto og Allegretto). Hrynræn samstilling var þó víðast hvar snörp - nema í "þrí-stuðunum" örlagaþrungnu í III er náðu ekki öll saman. Líkt og með hinn fræga píanókvintett Dmitris er 8. kvartettinn af þeirri gæðagráðu að geta boðið upp á ólíkustu túlkanir, enda eftirtektarvert hvað frekar lágstemmd nálgun hópsins náði að skila miklu, miðað við blóði drifnustu útgáfur í framboði.

Pjotr Iljitsj Tsjækovskíj samdi aðeins eitt píanótríó um ævina. Að sögn hafði hann litla trú á samhljómi píanós og strokhljóðfæra, og því einkennilegt að ráðast til atlögu við þessa líklega vandmeðförnustu grein slíks samspils, þar sem nútímaflygillinn á til að kaffæra fiðluna og þó einkum sellóið, í stað miklu jafnvægari áhafna píanókvartetts eða -kvintetts. Á hinn bóginn er Tríóið í a-moll frá 1882 (kostað af velgjörðarkonu Tjækovsíjs, járnbrautakóngsekkjunni Nadesjdu von Meck) trúlega meðal þeirra lengstu úr hendi klassísk-rómantíska höfuðtónskálda, þótt aðeins í tveim þáttum sé. Í hérumræddum flutningi stóð það fullar 57 mín., og rifjaðist ósjálfrátt upp þriggja kortéra langur f-moll píanókvintett Césars Francks, sem fluttur var hér fyrir ári og ætlaði aldrei enda að taka.

En ólíkt belgíska verkinu hélt maraþontríó Rússans athygli manns alla leið, jafnvel þótt Tjæskovskíj hafi sjálfur gefið vilyrði um styttingar upp á drjúgar 10 mínútur. Eftir því að dæma virtist hann ekki allskostar sannfærður um ágæti verksins, frekar en margir flytjendur fyrri ára er slepptu m.a. fúgunni (8. tilbrigði) úr II. þætti. Svo er þó ekki lengur, og þó að hópurinn ætti framan af í basli með að brúa tiltekið reynsluleysi tónskáldsins, ef marka má hvað slagharpan lét hart á akkorðum undir fingurgóma Arnar Magnússonar og yfirgnæfði oft frekar hnípinn strengjaleik Hildigunnar og Sigurðar Halldórsbarna, náðist hins vegar áberandi betra jafnvægi þegar leið á seinni þáttinn, Tema con variazioni, um stef í þriggja takta hendingum er vel gæti verið rússneskt þjóðlag.

Margt gat þar eftirminnilegt að heyra, t.d. kristalsklingjandi klukkuspilið í 5. tilbrigði ofan á kyrrlægum strengjabordúnum. Listrænu hámarki náði hópurinn þó í 9. tilbrigðinu, er einkennist af ítrekuðum hnígandi píanórunum á móti líðandi strengjastrokum con sordino, og því 10., nærri því Grieg-legum mazúrka með hjarðsælum unaðsblæ. 11. og síðasta tilbrigðið var afar úthaldskræft og kannski ekki nema von að fykju nokkrar finkur í leiðinni, enda með afbrigðum þykkildislega skrifað. Hitt var þó ljóst að þremenningarnir höfðu unnið þrekvirki með þessum flutningi og mikið lagt í sölurnar fyrir aðeins eina tónleika. Þótt varla sé það annars einsdæmi á dvergvöxnum kammertónlistarmarkaði Frónbúans.

Ríkarður Ö. Pálsson