Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í gær að hann og ríkisstjórnin bæru vissulega pólitíska ábyrgð á aðgerðunum á LSH.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í gær að hann og ríkisstjórnin bæru vissulega pólitíska ábyrgð á aðgerðunum á LSH.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórnarmeirihlutinn var gagnrýndur fyrir stefnuleysi í umræðum um heilbrigðismál á Alþingi í gær. Umræðurnar stóðu yfir í tvo tíma en þar fjallaði heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, aðallega um aðgerðirnar á LSH.

JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra ítrekaði á Alþingi í gær að ríkisstjórnin og hann sjálfur sem heilbrigðisráðherra bæru að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á sparnaðaraðgerðunum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH). Hins vegar þyrftu starfsmenn sjúkrahússins að fá svigrúm til að fara yfir það hvernig aðgerðirnar gætu komið sem minnst niður á þjónustunni. Kom þetta fram í máli ráðherra í umræðum um heilbrigðismál á Alþingi. Umræðan stóð yfir í nær tvo tíma.

Fjölmargir þingmenn tóku til máls og gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðu ríkisstjórnina m.a. fyrir stefnuleysi í heilbrigðismálum. Átöldu þeir einnig harðlega aðhaldsaðgerðir innan LSH og sögðu að þær stefndu öryggi sjúklinga í hættu. Þingmenn stjórnarflokkanna lögðu áherslu á að útgjöld til heilbrigðismála hefðu aukist hin síðari ár.

Rangt að bíða eftir nefndinni

"Það hefur verið gagnrýnt að undanförnu," sagði heilbrigðisráðherra, "að gripið skuli til hagræðinga en ekki beðið eftir niðurstöðu verkaskiptinganefndarinnar svokölluðu." Vísaði hann þar til nefndar ráðuneytisins, sem Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis stýrir. Ráðherra vísaði þessari gagnrýni á bug og sagði að það hefði skapað enn meiri óvissu innan LSH með því að fresta aðgerðunum. Ráðherra fór yfir markmið fyrrgreindrar nefndar og skýrði frá því að hlutverk hennar væri að skerpa skilin milli heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi sérfræðinga og annarra heilbrigðisstofnana. Stefnt er að því að nefndin skili niðurstöðum sínum síðar á árinu og ítrekaði ráðherra að það myndi skapa meiri óvissu að bíða eftir henni. "Það má gera ráð fyrir að nefndin skili tillögu sem kunni að hafa í för með sér einhvern tilflutning verkefna. Það er þó ekki skynsamlegt á þessu stigi að gera ráð fyrir að þeim breytingum fylgi einhver verulegur sparnaður fyrir þjóðarbúið í heild." Ráðherra sagði aukinheldur að nokkrar af fyrirhuguðum aðgerðum á LSH hefðu sætt gagnrýni. Hann hefði hins vegar í viðræðum sínum við stjórnendur spítalans lagt áherslu á öryggi sjúklinganna.

"Allar ákvarðanir hafa haft það meginmarkmið að ná fram hámarkssparnaði með sem minnstum óþægindum fyrir sjúklinga og starfsmenn. Ég vænti þess að framkvæmdastjórn spítalans og stjórnarnefnd hafi þessi sjónarmið í huga þegar þeir gegna sína erfiða hlutverki sem ekki er öfundsvert," sagði hann og bætti við: "Ég tel að stjórnendur og starfsfólk spítalans hafi tekið á þessu af mikilli ábyrgð." Jón gerði stefnu stjórnvalda í málefnum LSH einnig að umtalsefni. Sagði hann þá stefnu vera skýra. Sagði hann m.a. að LSH væri helsta bráðasjúkrahús landsins og tæki á móti sjúklingum með brýn vandamál sem krefðust úrlausnar strax. "Ég fullyrði að það er þjóðarsátt um þessa stefnu og hún hefur ekki verið rofin."

Ráðherra ítrekaði að síðustu að aðgerðirnar á LSH væru vissulega erfiðar. "Og ég geri ekki lítið úr þeim. Síður en svo." Hann minnti þó á að aðgerðirnar væru til þess fallnar að tryggja að áfram yrði hægt að veita þegnum landsins "heilbrigðisþjónustu í þeim gæðaflokki, sem við teljum vera nauðsynlegur."

Líf sjúklinga í hættu

Gunnar Örlygsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði m.a. að LSH hefði ekki skýr fyrirmæli frá heilbrigðisyfirvöldum um hlutverk sitt. "Hvernig í ósköpunum á stofnunin að geta starfað með eðlilegum hætti þegar slíku grundvallaratriði er ábótavant," spurði hann og bætti því við að stjórnun heilbrigðismála á Íslandi væri í molum. Hann sagði að heilsugæsla, sérfræðiþjónusta og sjúkrahús væru hinar þrjár meginstoðir heilbrigðiskerfisins. "En það vantar ljóslifandi skilgreiningu á hlutverki hinna þriggja meginstoða."

Síðan sagði hann: "Í stað þess að ráðast að rót vandans og uppræta meinið sem veldur himinháum útgjöldum til heilbrigðismála er ráðist harkalega á hundruð starfsmanna LSH og líf fjölda sjúkra einstaklinga er sett í hættu."

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði m.a. að engin þjóð í heiminum hefði aukið framlög sín til heilbrigðismála jafn mikið á sl. tíu árum og Íslendingar. Vísaði hann til upplýsinga OECD í því sambandi. Einar Oddur gagnrýndi síðan staðhæfingu Ólafs Ólafssonar, formanns Félags eldri borgara í Reykjavík, um að heilbrigðisþjónustan hér á landi væri ekki eins dýr og fram kæmi í niðurstöðum OECD. Einar Oddur sagði að fullyrðingar Ólafs væru kerlingabækur. "Fjármálaráðuneytið hefur haft samband við OECD og farið yfir þetta mjög nákvæmlega," sagði Einar Oddur og bætti því við að niðurstaðan hefði verið alveg skýr. "Uppgjör Íslands á heilbrigðiskostnaði er nákvæmlega eins framreiknað eins og í öllum öðrum ríkum þjóðum Evrópu. Það er engin villa þarna. Það eru hreinar kerlingabækur að halda því fram að við séum að rugla saman heilbrigðismálum og félagsmálum [....]"

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði að ríkisstjórnin hefði sýnt vítavert ábyrgðarleysi gagnvart LSH, starfsmönnum þess og sjúklingum. Engin þjóðarsátt ríkti um aðför ríkisstjórnarinnar að heilbrigðisþjónustunni.

Þá sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, að með niðurskurði á LSH væri verið að víkja verkefnum úr hinu samábyrga heilbrigðiskerfi yfir í einkageirann.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, minnti á að landsfundur flokksins hefði ákveðið "að loka ekki fyrirfram á þann möguleika að samhliða opinberum rekstri geti einkarekstur átt sér stað í kerfinu." Hann tók þó fram að einkarekstur væri ekkert töfraorð; hann leysti ekki allan vanda. Síðar sagði hann: "Við jafnaðarmenn viljum áframhaldandi þjóðarsátt um heilbrigðismál og við bjóðum fram okkar starfskraft í þeim efnum. Mér finnst hins vegar að þessa dagana kjósi ríkisstjórnin fremur að fara um heilbrigðiskerfið eins og fílar í glervörubúð. Hún leggur í svo hraðan niðurskurð að hann er ekki gerlegur á einu ári án þess að skerða þjónustu og skapa óöryggi fyrir íbúa landsins." Össur sagði að á Alþingi þyrfti að ríkja sátt um það grundvallaratriði að aðgengi að heilbrigðiskerfinu yrði alltaf óháð efnahag.

Ekki eyland í kerfinu

Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ekki mætti tala um LSH sem eitthvert eyland í heilbrigðisþjónustunni. Hún sagði meginstoðirnar í heilbrigðiskerfi vera þrjár: Landspítali - háskólasjúkrahús, heilsugæslan og sérfræðilæknaþjónustan utan spítalanna. Hún sagði það stefnu Framsóknarflokksins að standa vörð um þessar þrjár meginstoðir. Byggja ætti upp heilsugæsluna og tryggja nægjanlegan fjölda hjúkrunarrýma þannig að LSH gæti sinnt meginhlutverki sínu, sem bráðasjúkrahús og kennslustofnun.

Sigríður Anna Þórðardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það augljóst að ríkið ætti að bjóða út verkefni í heilbrigðiskerfinu. Íslendingar væru hins vegar að dragast aftur úr öðrum þjóðum í þeim efnum. "Ísland hefur hreinlega dregist aftur úr miðað við aðrar þjóðir í því að nýta kosti einkarekstrar í heilbrigðsmálum," sagði hún. Sigríður taldi að menn væru að vakna til vitundar um þessi mál. Þar á meðal Samfylkingin sem hefði tekið undir hugmyndir sjálfstæðismanna um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.