Hækkun: Milli tuttugu og hundrað og fimmtíu prósenta hækkun hefur orðið á fasteignaverði á Mið-Austurlandi í kjölfar ákvörðunar um álverið.
Hækkun: Milli tuttugu og hundrað og fimmtíu prósenta hækkun hefur orðið á fasteignaverði á Mið-Austurlandi í kjölfar ákvörðunar um álverið.
HILMAR Gunnlaugsson, eigandi Fasteigna- og skipasölu Austurlands, telur óhætt að fullyrða að frá því að ákvörðun Alcoa um að byggja álver á Austurlandi var gerð kunn í byrjun árs 2003 hafi fasteignaverð hækkað um 20-150% á Mið-Austurlandi.

HILMAR Gunnlaugsson, eigandi Fasteigna- og skipasölu Austurlands, telur óhætt að fullyrða að frá því að ákvörðun Alcoa um að byggja álver á Austurlandi var gerð kunn í byrjun árs 2003 hafi fasteignaverð hækkað um 20-150% á Mið-Austurlandi. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að hækkunin væri hlutfallslega mest á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.

"Sé miðað við að meðaltalshækkunin hafi verið um 30% lætur nærri að markaðsvirði fasteigna á Austurlandi hafi hækkað um 15-20 milljarða á þessu eina ári," segir Hilmar. "Það verður að hafa varann á því að ekki eru mjög margar sölur á bak við þetta. En á Fáskrúðsfirði, þar sem afar erfitt var að selja eignir og þær komnar mjög neðarlega í sumum tilvikum, þá jaðrar við að tala megi um 200% hækkun á verði í einstökum dæmum. Ég fullyrði að daginn sem ákveðið var að byggja álver í Reyðarfirði hækkuðu þar sumar eignir um 100%. Ég var með stórt og gott einbýlishús á Reyðarfirði í sölu og á það voru settar 10 til 11 milljónir. Áhugi var fyrir húsinu, en þegar ég hringdi í seljanda, skömmu eftir ákvörðunina um álverið, sagðist hann vera búinn að hækka verðið í 18 milljónir. Söluhugmyndir fólks hækkuðu því verulega og það voru rök fyrir því. En það verður að undirstrika að verið er að tala um hækkun frá mjög lágu verði. Menn voru farnir að kaupa hér góð einbýlishús á innan við fimm milljónir króna áður en Fjarðaál kom til."

Hilmar telur jafnframt að búast megi við verulegri hreyfingu á fasteignamarkaðinum á Austurlandi á árinu 2004. Fólk flytji nú til Austurlands í auknum mæli, auk þess sem fjölmargir þurfi að hagræða hjá sér og fara í húsnæði sem hentar betur fjölskyldustærð.

"Þessi gífurlega verðhækkun fasteigna er dæmi sem menn vita ekki hvað endist lengi," segir Hilmar. Ég reikna þó með að við séum að horfa á heilbrigðan markað á svæðinu til lengri tíma. Auðvitað er það svo að menn spyrja sig hvað gerist eftir fimm ár. Sjálfsagt verður eitthvað minni spenna á markaðnum þá en hvort það verður á þeim eignum sem ganga kaupum og sölum eða á leigumarkaði er óvíst."

Hilmar segir 90% veltuaukningu hafa orðið hjá Fasteigna- og skipasölu Austurlands á milli áranna 2002 og 2003 þrátt fyrir að samkeppni í fasteignasölu á svæðinu hafi aukist verulega. Fjöldi kaupsamninga hafi aukist um 47% en jákvæðust sé auðvitað verðhækkunin.