HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær karlmann í 10 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveim stúlkum á árunum 2000 til 2002. Voru þær 6-8 ára er brotin voru framin. Skal ákærði greiða hvorri þeirra 300 þúsund krónur í miskabætur.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær karlmann í 10 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveim stúlkum á árunum 2000 til 2002. Voru þær 6-8 ára er brotin voru framin. Skal ákærði greiða hvorri þeirra 300 þúsund krónur í miskabætur.

Brot ákærða voru talin alvarleg og beinast að mikilvægum hagsmunum stúlknanna. Hefði hann notfært sér ungan aldur þeirra til þess að misnota þær kynferðislega. Af gögnum málsins réð dómurinn að stúlkurnar hefðu orðið fyrir áfalli en þeim hefði tekist með hjálp fagaðila að vinna sig út úr vandanum. Þær hefðu orðið fyrir miska og það væri álit sérfræðinga Barnahúss að þær þyrftu á aðstoð fagaðila að halda er þær kæmust á unglingsárin.

Málið dæmdu héraðsdómararnir Guðmundur L. Jóhannesson dómsformaður, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson. Verjandi ákærða var Þorvaldur Jóhannesson hdl. og sækjandi Sigríður Jósefsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.