HÆSTIRÉTTUR hnekkti í gær dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ekkju starfsmanns í álverinu í Straumsvík sem lést í vinnuslysi sumarið 2001. Héraðsdómur dæmdi henni 7 milljónir króna í bætur en Hæstiréttur sýknaði Kerfóðrun hf.

HÆSTIRÉTTUR hnekkti í gær dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ekkju starfsmanns í álverinu í Straumsvík sem lést í vinnuslysi sumarið 2001. Héraðsdómur dæmdi henni 7 milljónir króna í bætur en Hæstiréttur sýknaði Kerfóðrun hf., vinnuveitanda mannsins, af kröfu hennar.

Ágreiningur um fjárhagslegt uppgjör

Ágreiningur reis með eftirlifandi eiginkonu hins látna og Kerfóðrun um fjárhagslegt uppgjör vegna slyssins en eiginmaður hennar lést af áverkum sem hann hlaut er skammhlaup varð í rafskautum með þeim afleiðingum að rafblossi skall á honum og samstarfsmanni hans. Verið var að fjarlægja millitengingar milli rafskauta í keri í kerskála er slysið varð.

Vinnuveitandinn taldi að samkvæmt ákvæðum skaðbótalaga ætti, auk bóta samkvæmt slysatryggingu, að draga frá skaðabótum þær bætur frá öðrum sem maðurinn hefði fengið greiddar ef hann hefði lifað slysið af en hlotið 100% örorku.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 127/2002 var skorið úr ágreiningi um uppgjör bóta fyrir missi framfæranda vegna banaslyss sem varð eftir gildistöku laga nr. 37/1999 um breytingu á lögum nr. 50/1993.

Talið var að ekki yrði hjá því komist að fallast á með Kerfóðrun að sá dómur væri skýrt fordæmi um að áðurnefndar greiðslur skyldu koma til frádráttar við uppgjör bóta fyrir missi framfæranda. Var því fallist á sýknukröfu fyrirtækisins og sagði Hæstiréttur að tilvísun stefnanda til 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar fengi ekki breytt þeirri niðurstöðu.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir. Lögmaður áfrýjanda, Kerfóðrunar, var Jakob R. Möller hrl. og lögmaður ekkjunnar Björn L. Bergsson hrl.