Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
"ÞAÐ er ljóst að Þjóðminjasafnið verður ekki opnað að nýju þann 22. apríl en það verður opnað með glæsibrag síðar á árinu," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

"ÞAÐ er ljóst að Þjóðminjasafnið verður ekki opnað að nýju þann 22. apríl en það verður opnað með glæsibrag síðar á árinu," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

"Ég vil alls ekki nefna neina ákveðna dagsetningu fyrir opnunina því meginmálið er að framkvæma þetta rétt og sjá til þess að sýningin verði sem glæsilegust þegar safnið opnar að nýju. Smíðin á skápunum utan um alla þá verðmætu muni sem safnið geymir er afar flókin og það er ljóst að þeir koma ekki til landsins fyrr en í byrjun júní. Þá á eftir að setja þá upp og koma mununum fyrir í þeim sem er hvort tveggja mjög vandasamt verk."

Þorgerður Katrín segir að þær tafir sem orðið hafa á framkvæmdinni hafi verið ógjörningur að sjá fyrir. "Þetta reyndist miklu flóknara verkefni en menn gátu sér til um í byrjun, húsið var mun verr farið en menn gerðu sér grein fyrir og í kjölfarið hefur fjölmargt komið uppá sem enginn gat látið sér detta í hug fyrirfram."

Þorgerður Katrín segir að ýmsar dagsetningar komi upp í hugann varðandi opnun safnsins en segir að engin þeirra sé mikilvægari en önnur. "Þetta er okkar þjóðminjasafn og mikilvægast er að ljúka þessari framkvæmd með sóma."