EKKI er ljóst hvar 32 fjölfötluðum einstaklingum sem notið hafa endurhæfingarþjónustu á endurhæfingardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi verður veitt slík þjónusta í framtíðinni.

EKKI er ljóst hvar 32 fjölfötluðum einstaklingum sem notið hafa endurhæfingarþjónustu á endurhæfingardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi verður veitt slík þjónusta í framtíðinni. Af 56 einstaklingum sem notið hafa þjónustu endurhæfingardeildarinnar eru 24 íbúar á staðnum og skv. upplýsingum Magnúsar Péturssonar, forstjóra LSH, eru þeir á ábyrgð spítalans og verður þeim sinnt hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir niðurskurðaraðgerðir á spítalanum. 32 einstaklingar búa hins vegar annars staðar, m.a. á sambýlum fyrir fatlaða, og verður leitað samstarfs um að fundin verði önnur ráð til að veita þeim endurhæfingarþjónustu í framtíðinni.

Leita samstarfs við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra

Lokun endurhæfingardeildarinnar fyrir fjölfatlaða í Kópavogi er meðal þeirra niðurskurðaráforma sem boðuð hafa verið á LSH. Stjórnarnefnd LSH samþykkti á fundi sínum sl. miðvikudag að beina þeim tilmælum til framkvæmdastjórnar spítalans að leitað verði samstarfs við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og heilbrigðisráðherra um að tryggja áfram rekstur endurhæfingardeildarinnar. "Samhliða verði unnin greinargerð um þá þjónustu sem þar er veitt og metnir möguleikar á að veita hana annars staðar. Verði hvoru tveggja hraðað sem kostur er til að eyða óvissu," segir í samþykkt stjórnarnefndar. Magnús Pétursson segir að strax verði gengið í að ræða við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og ráðuneyti heilbrigðismála og félagsmála um lausn málsins.

Þeim 24 einstaklingum sem eru á ábyrgð spítalans verði sinnt hér eftir sem hingað til varðandi þá endurhæfingu sem þeir þurfa á að halda. Það verði annað hvort gert með því að senda sjúkraþjálfara sem starfa á legudeildinni á Grensási til að veita þessa þjónustu í Kópavogi eða með því að flytja sjúklinga sem á því þurfa að halda á Grensásdeildina

"Þessir 32 einstaklingar sem eru á sambýlum eru á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins og við teljum okkur ekki hafa ráð á að halda uppi svo mikilli þjónustu að óbreyttu fyrir þann hóp," segir Magnús. Hann segir að leitað verði samstarfs um að fundin verði sameiginleg lausn á málefnum þessara einstaklinga.