Sporvagninn öskur og ólæti Á sunnudagskvöldið fór ég í Borgarleikhúsið til að sjá Sporvagninn Girnd en mér til sárra vonbrigða kom brátt í ljós að ég hafði farið vagnavillt.

Sporvagninn öskur og ólæti

Á sunnudagskvöldið fór ég í Borgarleikhúsið til að sjá Sporvagninn Girnd en mér til sárra vonbrigða kom brátt í ljós að ég hafði farið vagnavillt. Það var verið að sýna Sporvagninn öskur og ólæti en ekki þann sem kenndur er við Girnd. Ef vagnstjórinn hefði ekki farið svona hrapallega illa út af sporinu eins og raun varð á hefði eflaust verið hægt að njóta sýningarinnar betur á þessu öndvegisverki bandarískra leikbókmennta á síðustu öld. Tennessee Williams á áreiðanlega betra skilið.

Halldór Þorsteinsson,

fyrrverandi leikdómari.

Heilsa og lífsgæði

Í ÞESSU nútímasamfélagi okkar er fátt mikilvægara en að halda sér í formi.

Margt af því fólki sem ég sé á förnum vegi er ekki að lifa lífinu. Það er í raun deyjandi. Mikilvægasti hluti lífsgæðakapphlaupsins hlýtur að vera bætt heilsa. Nýtt heimabíókerfi getur aldrei slegið út betri líðan.

Tökum höndum saman og lifum lífinu.

Trausti Þorgeirsson.

Fleiri fræðsluþætti

ÉG vil koma á framfæri þakklæti til Ríkissjónvarpsins fyrir þættina um Medici-ættina sem sýndir hafa verið að undanförnu. Ég skora á sjónvarpið að sýna meira af sambærilegu efni og endursýna þessa þætti sem fyrst.

Ég vil einnig koma þeirri ábendingu til sjónvarpsins að það reyni að greina sig betur frá afþreyingarsjónvarpsstöðvunum t.d. með því að bjóða upp á fleiri fræðsluþætti á sýningartíma sem hentar vinnandi fólki, þ.e. ekki fyrir kvöldfréttir eða eftir klukkan ellefu.

Ekki mundi skaða að negla niður einhverja ákveðna daga fyrir fræðsluefni einu sinni til tvisvar í viku og auglýsa þá daga sérstaklega.

Það mætti svo hugsa sér ákveðið fræðsluþema í hverjum mánuði, t.d. sagnfræði, myndlist, tónlist, viðskipti, bókmenntir o.s.frv. Maður gæti þá gengið að góðri fræðslu t.d. alltaf á mánudögum kl. 20-22 eða eitthvað slíkt.

Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá er ég alls ekki að fara fram á að sjónvarpið hætti að sýna skemmtiefni, það er einmitt sérstakt ánægjuefni að fá þætti eins og Smack the Pony og Office fyrir afnotagjöldin sín.

Höfuðborgarbúi.

Pressukvöld fyrr á dagskrá

Ég vil koma þeirri fyrirspurn á framfæri hvort Sjónvarpið geti ekki haft þáttinn Pressukvöld á dagskrá fyrr um kvöldið.

Áhorfandi.