SAMKEPPNISSTOFNUN hefur veitt olíufélögunum þremur, Olíufélaginu, Olíuverzlun Íslands og Skeljungi, frest til 3. maí til að setja fram andmæli gegn frumskýrslu stofnunarinnar vegna meints verðsamráðs félaganna.

SAMKEPPNISSTOFNUN hefur veitt olíufélögunum þremur, Olíufélaginu, Olíuverzlun Íslands og Skeljungi, frest til 3. maí til að setja fram andmæli gegn frumskýrslu stofnunarinnar vegna meints verðsamráðs félaganna.

Guðmundur Sigurðsson, yfirmaður samkeppnismála Samkeppnisstofnunar, segir að frestur olíufélaganna hafi átt að renna út 15. febrúar en þau hafi sótt um frest út maí til að bera fram andmæli sín.

Guðmundur segir að ástæða þess að frestur var gefinn hafi verið sú að olíufélögin hafi haft málefnalegar ástæður fyrir frestinum, en talið hafi verið hæfilegt að gefa frest til 3. maí. Hann segir skýrsluna umfangsmikla og fylgigögn með henni fylli tíu möppur. Hann segist binda vonir við að málinu verði lokið hjá samkeppnisráði um eða upp úr miðju sumri.

Síðari skýrslan mun lengri

Gestur Jónsson, lögmaður og stjórnarformaður Skeljungs, segir að um leið og frestur hafi verið gefinn hafi verið afhent fylgigögn með síðari hluta skýrslunnar. Skýrslan sé í tveimur hlutum og síðari hlutinn, sem sé mun lengri en sá fyrri, yfir 400 blaðsíður, hafi verið afhentur í desember. Hann segir olíufélögin hafa verulegar athugasemdir við skýrsluna og óskað hafi verið eftir fresti þar sem gríðarlegt verk sé að vinna andmæli gagnvart henni.