DAGRÓÐRABÁTAR sem róa með landbeitta línu geta fengið ívilnun á ýsu- og steinbítsafla sinn frá og með 1. febrúar nk. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

DAGRÓÐRABÁTAR sem róa með landbeitta línu geta fengið ívilnun á ýsu- og steinbítsafla sinn frá og með 1. febrúar nk. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Yfir 850 línubátar hafa fengið heimild til að nýta sér línuívilnun en ætla má að aðeins hluti þeirra muni nýta sér hana.

Fiskistofa hefur sent útgerðum smærri báta og báta sem stundað hafa línuveiðar síðustu ár bréf þar sem skýrð eru skilyrði fyrir línuívilnun en reglugerð þar að lútandi kveður á um að dagróðrabátum sem róa með línu sé heimilt að landa 16% umfram aflamark sitt í ýsu og steinbít. Heimildin er þó háð ýmsum skilyrðum. Meðal skilyrða sem þarf að uppfylla til að njóta línuvilnunar er að línan sé beitt í landi og ekki séu önnur veiðarfæri um borð. Ennfremur er línuívilnun bundin því skilyrði að landa verður aflanum í sömu höfn og línan var tekin um borð og að lagt hafi verið af stað í róður úr þeirri höfn. Þá verða línubátar að koma til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að lagt var af stað í róður, ætli þeir sér að nýta ívilnunina. Eins verða skipstjórnarmenn að tilkynna í þjónustusíma Fiskistofu, Símalínu, um upphaf og lok veiðiferðar og taka fram við skráningu afla í löndunarhöfn að veitt hafi verið með landbeittri línu.

Öll gögn verða skráð inn í gagnagrunn Fiskistofu sem verður aðgengilegur á netinu. Útgerðum 855 báta var sent sérstakt lykilnúmer til að gera þeim kleift að skrá sig inn í þjónustusíma Fiskistofu. Þar af eru 543 bátar í krókaaflamarkskerfi og 264 smábátar í aflamarkskerfi. Eins fengu um 48 stærri línubátar í aflamarkskerfi sent lykilnúmer.