FRANSKA ríkisstjórnin hefur lagt blessun sína yfir umdeilt lagafrumvarp sem kveður á um að mönnum verði bannað að bera tiltekin, áberandi trúartákn í skólum landsins. Fullvíst er talið að þing Frakklands samþykki lögin í byrjun febrúar.

FRANSKA ríkisstjórnin hefur lagt blessun sína yfir umdeilt lagafrumvarp sem kveður á um að mönnum verði bannað að bera tiltekin, áberandi trúartákn í skólum landsins. Fullvíst er talið að þing Frakklands samþykki lögin í byrjun febrúar.

Í frumvarpinu segir að banna beri nemendum í frönskum skólum að bera tákn eða klæðast fatnaði sem skýrlega vísi til trúar þeirra. Jacques Chirac Frakklandsforseti sagði á miðvikudag að lögunum væri ætlað að tryggja "trúarlegt hlutleysi" í ríkisskólum landsins. Því færi á hinn bóginn fjarri að ætlunin væri að banna mönnum að opinbera trúarsannfæringu sína með táknrænum hætti í daglegu lífi sínu.

Mesta athygli hefur vakið að samkvæmt lögunum munu íslamskar stúlkur ekki mega bera höfuðslæðu eða hijab í skólum landsins. Hafa múslímar í Frakklandi sagt bannið vera aðför að trú þeirra og mótmælt því opinberlega. Skiptar skoðanir munu þó vera um bannið í röðum múslíma í Frakklandi. Skoðanakannanir hafa þannig gefið til kynna að um helmingur ungra kvenna sé því hlynntur.

Bannið tekur til fleiri trúartákna en höfuðslæðunnar. Þannig verður nemendum bannað að bera áberandi krossa og höfuðfatnaður gyðinga verður sömuleiðis óleyfilegur í frönskum ríkisskólum. Menntamálaráðherra Frakklands, Luc Ferry, sagði í liðinni viku að vera kynni að trúarleg höfuðbönd yrðu einnig gerð útlæg úr ríkisskólum auk þess sem til greina kæmi að banna mönnum að bera skegg væri tilgangurinn með því augljóslega sá að vitna um trú viðkomandi. Ekki er ljóst hvort kveðið verður á um þetta í lögunum.

Fullvíst er talið að þing Frakklands samþykki frumvarpið. Flokkur Chiracs forseta, UMP, hefur traustan meirihluta og alvarlegrar andstöðu hefur ekki orðið vart í röðum þingmanna flokksins. Frumvarpið verður lagt fyrir á þriðjudag í næstu viku. Búist er við að fyrsta atkvæðagreiðsla fari fram 10. febrúar.

París. AFP.