Ragnhildur Hjaltadóttir, gjaldkeri Íslandsbanka, við afgreiðslu í Grímsey.
Ragnhildur Hjaltadóttir, gjaldkeri Íslandsbanka, við afgreiðslu í Grímsey.
ÍSLANDSBANKI hefur opnað útibú í Grímsey sem mun jafnframt vera nyrsta bankaútibú á byggðu bóli á Íslandi og það fyrsta sem staðsett er við heimskautsbaug.

ÍSLANDSBANKI hefur opnað útibú í Grímsey sem mun jafnframt vera nyrsta bankaútibú á byggðu bóli á Íslandi og það fyrsta sem staðsett er við heimskautsbaug. Pósthúsið í Grímsey veitti til margra ára almenna bankaþjónustu í eynni, en eftir að gírókerfið var tekið í notkun varð erfiðara fyrir íbúa eyjarinnar að ganga frá mánaðarlegum skuldum og ýmiss konar millifærslum, en Íslandspóstur hætti að veita þessa þjónustu.

Íslandsbanki keypti í haust vátryggingafélagið Sjóvá-Almennar og var haft samband við Ragnhildi Hjaltadóttur, sem hefur verið umboðsmaður tryggingafélagsins í eynni í nær fimmtán ár, að taka að sér þessa þjónustu fyrir bankann. Ragnhildur opnaði síðan fyrsta útibúið nú á dögunum, á heimili sínu að Gerðubergi. Segir hún að viðskiptavinir geti þar fengið alla sömu þjónustu og hjá bankagjaldkera Íslandsbanka á fastalandinu.

Grímseyingar hafa tekið þessari þjónustu fagnandi og hafa viðskiptin verið góð. Segist Ragnhildur því sannarlega líta framtíð bankaútibúsins í nyrstu byggð björtum augum.

Grímsey. Morgunblaðið.