LÍFEYRISSJÓÐURINN Framsýn hefur selt 3% hlut í Íslandsbanka og á eftir söluna 4,18% í bankanum. Verðmæti hlutarins sem seldur var er um 2,3 milljarðar króna, en ekki hefur verið gefið upp hver kaupandinn er.

LÍFEYRISSJÓÐURINN Framsýn hefur selt 3% hlut í Íslandsbanka og á eftir söluna 4,18% í bankanum. Verðmæti hlutarins sem seldur var er um 2,3 milljarðar króna, en ekki hefur verið gefið upp hver kaupandinn er.

Lífeyrissjóðurinn Framsýn var annar stærsti hluthafi Íslandsbanka fyrir söluna en er nú sá fimmti stærsti. Bjarni Brynjólfsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins, segir að leitað hafi verið til Framsýnar um sölu hlutarins og ákvörðun hafi verið tekin um að selja, enda hafi komið sér vel að selja þar sem Íslandsbanki hafi verið mjög stór í hlutabréfasafni Framsýnar.

Samkvæmt hluthafalista Íslandsbanka í gær var Lífeyrissjóður verslunarmanna stærsti hluthafi bankans með 8,5% hlutafjárins. Að teknu tilliti til sölu Framsýnar er Straumur Fjárfestingarbanki í öðru sæti á listanum með 5,6%. Landsbankinn Luxembourg komst nýlega inn á lista yfir stærstu eigendur og er skráður fyrir 4,5% hlut og Kaldbakur á 4,2% hlutafjárins.

Innherjar selja

Í gær og fyrradag seldu átta framkvæmdastjórar og aðstoðarforstjóri Íslandsbanka samtals rúmar níu milljónir króna að nafnverði í bankanum.

Lokagengi bankans í gær var 7,45 og hafði hækkað yfir daginn um 4,2%, sem mesta hækkun hjá einu fyrirtæki í Kauphöllinni í gær. Gengi hlutabréfa bankans hefur hækkað um rúmlega 16% frá áramótum og markaðsverð hans er nú 78 milljarðar króna.