GENGIÐ hefur verið frá því að KB banki mun eignast allt hlutafé í Skeljungi, en fyrir átti KB banki 50% í félaginu. Aðrir eigendur eru Sjóvá-Almennar tryggingar, með 25%, og Burðarás, með 25%, en bæði félögin hafa ákveðið að selja KB banka hluti sína.

GENGIÐ hefur verið frá því að KB banki mun eignast allt hlutafé í Skeljungi, en fyrir átti KB banki 50% í félaginu. Aðrir eigendur eru Sjóvá-Almennar tryggingar, með 25%, og Burðarás, með 25%, en bæði félögin hafa ákveðið að selja KB banka hluti sína.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka, segir að bankinn ætli sér ekki að eiga Skeljung til lengri tíma og fyrirtækið fari nú í sölumeðferð. Ekki liggi fyrir hvenær verði selt eða hver muni kaupa, en nokkrir hafi sýnt fyrirtækinu áhuga og margir möguleikar séu í stöðunni. Hreiðar Már segir að fyrirtækið sé sterkt og rekstur þess sé í ágætu lagi. Búið sé að selja þær eignir úr eignasafni Skeljungs sem hafi verið ótengdar rekstrinum, en ekki standi til að gera verulegar breytingar á rekstrinum fyrir söluna.

Einar Sveinsson, forstjóri Sjóvár-Almennra, segir að viðskiptunum með Skeljung hafi lyktað farsællega fyrir Sjóvá-Almennar. Friðrik Jóhannsson, framkvæmdastjóri Burðaráss, tekur í sama streng og segir þetta mjög eðlilega niðurstöðu.

Burðarás, KB banki og Sjóvá-Almennar stofnuðu í ágúst í fyrra hlutafélagið Steinhóla, sem keypti Skeljung að fullu og skráði félagið af markaði. Burðarás og Sjóvá-Almennar eiga sem fyrr segir hvort um sig fjórðung hlutafjár í Steinhólum, og þar með í Skeljungi óbeint. Hlutafé sem greitt var inn í Steinhóla var samtals 3.600 milljónir króna, eða 900 milljónir króna hvor fjórðungshlutur. Félögin tvö fá nú sama verð fyrir bréfin og þau lögðu fram, að viðbættum vöxtum frá því Steinhólar voru stofnaðir.