Jón Erlendsson: "Með því að búa til rafrænar glósur og endurnýta þær og samnýta geta menn náð margföldum sparnaði í vinnu."
Jón Erlendsson: "Með því að búa til rafrænar glósur og endurnýta þær og samnýta geta menn náð margföldum sparnaði í vinnu."
HJÁ Upplýsingaþjónustu Háskóla (UH) Íslands hefur verið þróuð ný tækni til að vinna vefgöng með margfalt meiri afköstum en áður. Alls hefur stofnunin þróað rúmlega 23.

HJÁ Upplýsingaþjónustu Háskóla (UH) Íslands hefur verið þróuð ný tækni til að vinna vefgöng með margfalt meiri afköstum en áður. Alls hefur stofnunin þróað rúmlega 23.000 vefsíður en samkvæmt tiltækum upplýsingum virðist geta verið um að ræða allt að helmingi þeirra vefsíðna sem tilheyra Háskólanum. Í fyrra voru unnar um 8.000 vefsíður. Dagleg afköst UH í vefsíðugerðinni eru nú á bilinu 20-40 síður.

Jón Erlendsson, forstöðumaður Upplýsingaþjónustu H.Í., segir að nú sé fyrir hendi bæði hugbúnaður og tækni sem geti nýst til þess að spara mikla og að hluta til óþarfa vinnu í háskólum og framhaldsskólum.

Hann segir unnið að því að koma þessari tækni í hendur kennara við H.Í. "Með því að búa til rafrænar glósur og endurnýta þær og samnýta geta menn náð margföldum vinnusparnaði," segir Jón og minnir um leið á þá gríðarlegu sóun á vinnu sem fylgir því þegar skólanemar skrifa ár eftir ár sömu glósurnar.

Heilu bekkjunum breytt í handvirkar fjölritunarvélar

"Þegar svo er þá má segja að heilu bekkjunum sé breytt í handvirkarfjölritunarvélar af verstu gerð! Tilgangsleysi slíkra vinnubragða er algert - nánast fullkomin tímasóun. Enginn tími gefst til virks náms í kennslustund þar sem skriftarálagið er óhóflegt," segir Jón. Hann telur ljóst að að minnsta kosti eitt þúsund til fimm þúsund ársverkum nemenda sé sóað í óþarfar endurskriftir á námsefni í háskólum og framhaldsskólum hér á landi ár hvert. Mestu af þessu efni sé síðan hent við fyrsta tækifæri. Jón vill að menn þrói vandaðar rafrænar glósur og gögn sem komi þá í staðinn fyrir árvissa vinnusóun við endurskriftir. Um leið verði byggður upp gagnabanki með samnýtanlegum gögnum. Sjálfur hefur Jón búið til slíka gagnabanka, m.a. um nýsköpun sem hann kennir í rafmagnsverkfræðiskor verkfræðideildar H.Í.

Gagnabanki um hagræðingu í menntamálum

Jón telur að auk þess að spara mikla vinnu verði með þessum hætti til varanlegt efni sem gagnast geti lengi og þá miklum fjölda. Tæknin sem UH hafi þróað skili margföldum eða tugföldum afköstum miðað við hefðbundnar aðferðir.

"Við höfum tekið risastökk á síðustu fimm árum sem tengist verkefni okkar sem nefnist Framleiðni í námi og fræðslu. Um er að ræða þróun á gagnabanka sem í eru viðamiklar upplýsingar um hvers kyns hagræðingarmöguleika á sviði fræðslumála. Þessu verkefni tilheyra nú yfir sjö þúsund vefsíður," segir Jón.

En hugmyndir Jóns ganga miklu lengra og sér hann fyrir sér að með samnýtanlegum gagnabanka verði hægt að bjóða upp á nánast tafarlausa og skrifega svarþjónustu hjá hinu opinbera sem nú einkennist of oft af töfum og seinagangi. Upplýsingaþjónusta H.Í. hafi þróað slíkar aðferðir og skilað nánast tafarlausum skriflegum svörum um árabil. Til þess að gera þetta þurfi að þróa á fyrrgreindum grunni afkastamikið kerfi, þ.e. skipulag, tækni, gögn og vinnubrögð, sem geti nýst til hagræðingar í ríkisrekstri. Megináherslan eigi að vera aukin framleiðni í þekkingarstörfum. Fræðsla sé sérlega vænlegt verkefni íþessu sambandi.

Jón segir að með hagnýtingu slíks kerfis verði hægt að tryggja mjög hraða öflun, mat og hagnýtingu á nýrri þekkingu. Þannig megi hagræða og spara á fjölmörgum sviðum. Hún muni einnig draga úr óþarfri og kostnaðarsamri endurritun eða endursamningu.

Jón telur skynsamlegast að hefja þróun fyrrgreindra kerfa innanþeirra ríkisgeira sem eru kostnaðarsamastir (þ.e. mennta- og heilbrigðisgeirans) en tekur fram að kjarninn í kerfinu, t.d. tækni og vinnubrögð, yrði auðnýtanlegur á hvaða sviði sem er.