* ENSKA knattspyrnufélagið Bolton hefur fengið varnarmanninn Steve Howey í sínar raðir frá Leicester en hann fékk sig leystan undan samningi sínum þar.

* ENSKA knattspyrnufélagið Bolton hefur fengið varnarmanninn Steve Howey í sínar raðir frá Leicester en hann fékk sig leystan undan samningi sínum þar. Howey lék lengi með Newcastle og þótti einn efnilegasti varnarmaður Englands, en meiðsli komu í veg fyrir frekari frama. Sam Allardyce , knattspyrnustjóri Bolton , hefur verið í vandræðum með varnarleikinn og var fljótur að semja við Howey þegar það stóð honum til boða.

* RUUD Van Nistelrooy, framherji Manchester United, skrifaði í gær undir nýjan fimm ára samning við Englandsmeistarana sem tryggir honum vikulaun upp á 90.000 pund eða sem svarar 11,5 milljónum króna á viku. Samningurinn felur í sér að Nistelrooy fær í sinn hlut 23,5 milljónir punda í laun næstu fimm árin eða tæpa 3 milljarða ísl. króna.

* ROMAN Pungartnik, örvhenti hornamaðurinn í liði Slóvena, leikur ekki meira með á Evrópumótinu í handknattleik. Hann sleit krossband í hné í leik með Slóvenum gegn Serbum. Pungartnik leikur með Kiel í Þýskalandi og ljóst er að hann spilar ekki meira með liðinu á leiktíðinni.

* BARCELONA ætlar að hreinsa verulega til í leikmannahópi sínum eftir tímabilið en að sögn spænska íþróttablaðsins Marca ætla Börsungar að láta átta leikmenn fara. Þeir eru: Patrick Kluivert , Luis Enrique , Gerard , Philip Cocu , Marc Overmars , Rüstu Recber , Michael Reiziger og Giovanni Van Bronckhorst, sem er í láni frá Arsenal.

* PERÚMAÐURINN Nolberto Solano, sem leikið hefur með Newcastle undanfarin ár, er á leið til Aston Villa en félögin komust í gær að samkomulagi um kaupverðið. Newcastle hafnaði í fyrstu tilboði frá Villa sem hljóðaði upp á 1 milljón punda en í gær var boðið hækkað og er talið að Aston Villa greiði 1,5 milljónir punda fyrir miðjumanninn sem er 29 ára gamall.

* SERBINN Radomir Antic tók í gær við þjálfun spænska 1. deildarliðsins Celta Vigo í stað Miguels Angel Lotina sem látinn var taka pokann sinn í vikunni vegna slæms gengis liðsins undir hans stjórn. Antic gerði samnig við Celta til 30. júní í sumar með möguleika á að framlengja hann um eitt ár. Celta Vigo er í fallbaráttu í spænsku 1. deildinn en er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir Arsenal .

* ANTIC er gamalreyndur þjálfari sem hóf feril sinn hjá FK Partizan í heimalandi sínu en hann hefur þjálfað Real Madrid , Barcelona og Atletico Madrid . Hann hætti störfum hjá Börsungum í fyrra eftir að hafa leyst Luis Van Gaal af hólmi.