STÚDENTARÁÐ Háskóla Íslands hefur sent Páli Skúlasyni rektor bréf þar sem farið er fram á fyrir hönd nokkurra stúdenta að Háskólinn endurgreiði próftökugjald í læknisfræði.

STÚDENTARÁÐ Háskóla Íslands hefur sent Páli Skúlasyni rektor bréf þar sem farið er fram á fyrir hönd nokkurra stúdenta að Háskólinn endurgreiði próftökugjald í læknisfræði.

Vitnað er í álit umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að skort hefði heimild í lögum til að innheimta gjaldið.

Þeim sem þreyttu inntökupróf til náms í læknisfræði við Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2003-2004 var gert að greiða 8.500 kr. Umboðsmaður tók málið til meðferðar að eigin frumkvæði og beinir þeim tilmælum til Háskólans að hann geri viðhlítandi ráðstafanir vegna þessa álits og eftir atvikum í samræmi við lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda að því er fram kemur í bréfi SHÍ.

Álit í samræmi við málflutning Stúdentaráðs

"Álit umboðsmanns er í samræmi við málflutning Stúdentaráðs í vor sem sat hjá við afgreiðslu málsins í háskólaráði og mótmælti gjaldtökunni. Fer Stúdentaráð því hér með fram á, fyrir hönd neðangreindra einstaklinga, að Háskóli Íslands endurgreiði þeim próftökugjaldið," segir í bréfi til rektors.