Jónas Ingimundarson og Gunnar Guðbjörnsson flytja Malarastúlkuna fögru í Salnum í kvöld.
Jónas Ingimundarson og Gunnar Guðbjörnsson flytja Malarastúlkuna fögru í Salnum í kvöld.
MALARASTÚLKAN fagra, lagaflokkur Schuberts við ljóð Wilhelms Müllers verður fluttur í Salnum í kvöld kl. 20. Það eru þeir Gunnar Guðbjörnsson tenór og píanóleikarinn Jónas Ingimundarson sem flytja verkið, en það hafa þeir gert áður.

MALARASTÚLKAN fagra, lagaflokkur Schuberts við ljóð Wilhelms Müllers verður fluttur í Salnum í kvöld kl. 20. Það eru þeir Gunnar Guðbjörnsson tenór og píanóleikarinn Jónas Ingimundarson sem flytja verkið, en það hafa þeir gert áður.

"Ég fór að fikta við þetta verk fyrir 15-16 árum," segir Gunnar, "og þá fluttum við Jónas verkið í fyrsta sinn. Ég var búinn að vera að syngja eitt og eitt Schubert-lag, en þetta var tiltölulega nýtt fyrir mér, ég hafði sungið minn fyrsta ljóðaflokk ári fyrr. Þetta var fyrsti ljóðaflokkurinn sem ég söng, sem tekur heila tónleika í flutningi. Þetta var heilmikið mál fyrir mig og ég eyddi miklum tíma í að glíma við textann. Nú eru komin tíu ár frá því ég söng Malarastúlkuna síðast og satt að segja var ég búinn að gleyma megninu af þessu. Nú sit ég á hjólinu í ræktinni og þyl textann um leið og ég púla. Fólkið í kring lítur á mig í forundran."

Gunnar kveðst þó njóta þess enn betur nú en áður að æfa Malarastúlkuna fögru. Störf hans hafa fyrst og fremst verið innan veggja óperunnar, en ljóðasönginn segir hann sérstaklega gefandi.

"Þú ert sjálfur að segja söguna; enginn leikstjóri til að segja manni hvernig á að gera hlutina. Í ljóðasöngnum erum það við Jónas sem ræðum okkar í milli hvernig við viljum hafa hlutina. Þó erum við ekkert að skipta okkur um of hvor af öðrum. Við segjum jú hvað okkur finnst, en oftast gerist þetta bara sjálfkrafa."

Í ljóðasöngnum er engin sviðsmynd eins og í óperunni - og þó - hún er þarna þótt ekki sé í eiginlegri merkingu. "Sviðsmyndin er sköpuð í tónlistinni sjálfri - í píanóinu og með röddinni og raddblænum. Schubert lætur píanóið skapa stemninguna og Jónas er mjög flinkur við það að taka þessa svörtu punkta á blaðinu og gera það úr þeim að áheyrendur sjá myndirnar og stemninguna ljóslifandi."

Gunnar segir að Schubert hafi séð einhvers konar þjáningarbróður í ljóðskáldinu Wilhelm Müller - ljóð hans höfðuðu sterkt til tónskáldsins. Annar stór lagaflokkur Schuberts, Vetrarferðin, er líka saminn við ljóð Müllers og viðfangsefnið þar er svipað.

"Ljóðin eru um ástina sem ekki er endurgoldin en svo virðist sem Schubert hafi oft lent í þannig aðstæðum. Ætli það hafi ekki dregið hann til dauða að lokum. Það er sagt að hann hafi fengið sýfilis, hann hefur kannski þurft að leita sér hlýju í vafasömum félagsskap vegna ástleysisins. Ljóð Müllers eru í sjálfu sér ekki póetískt merkileg og væru sennilega gleymd ef Schubert hefði ekki samið tónlist sína við þau. Það er eins í óperunum. Mörg þeirra bókmennta- og leikverka sem urðu síðar meir að óperum hefðu aldrei orðið klassísk nema fyrir óperurnar sem eftir þeim voru gerðar. Leikrit Beaumarchais eru ekki oft sett upp og væru kannski aldrei leikin ef ekki væri fyrir óperurnar um Fígaró sem byggðar voru á leikritum hans. Schubert tók þennan einfalda texta Wilhelms Müllers og klæddi hann í músík við hæfi, þannig að verkið snertir mann. Oft er það nefnilega það einfalda sem snertir mann mest."

Spenntari fyrir veiðimanninum

Í ljóðinu er sögð saga ungs pilts sem í upphafi er einhvers staðar á gangi, býsna glaður með sitt og á sér einskis ills von. Hann líkir sjálfum sér, förusveininum, við lækinn sem líður áfram um heiminn en þegar hann gengur fram á læk ákveður hann að fylgja honum. "Hann kemur þá að myllunni - en í þá daga voru myllur við flesta læki - í dag eru það Kárahnjúkavirkjanir - biður um vinnu í myllunni og kemst að því að þar er eitthvað sem hann hefur miklu meiri áhuga á en starfið - malarstúlkan fagra - dóttir malarans. Það verður aðalverkefni hans að reyna að ná ástum þessarar stúlku. Hún sest með honum við lækinn en þegar ský dregur fyrir tunglið stendur hún upp og fer. Hún er ekki sannfærð, meðan hann heldur að nú fari þetta allt að koma og honum takist ætlunarverkið. Það sígur svo á ógæfuhliðina þegar heyrist til veiðimannsins í skóginum en þá fer malarstúlkan að teygja hálsinn út um gluggan að skima eftir honum. Þá sér pilturinn að honum dugar ekki það eitt að gefa stúlkunni græna bandið af lútunni sinni. Hann leggst í grasið og sofnar. Við vitum ekki hvort það er svefninn langi eða ekki en ég kýs að hugsa eins og Pollýanna og vonast til þess að hann vakni aftur - í það minnsta þar til hann fer í Vetrarferðina en það er alveg klárt að þar verður hann úti."

Gunnar lýsir tónlist Schuberts við Malarastúlkuna sem hreinni snilld. Hann segir hana ljóðræna og fallega og um leið svo bjartsýna. "Depurðin hellist samt alltaf aftur yfir okkur þegar hlutirnir ganga ekki upp hjá stráknum - þegar vonirnar bresta. En hann er alltaf til í að rífa sig upp aftur og það er það fallega. Laglínur Schuberts eru líka ofboðslega fallegar og hann klæðir orðin svo vel með tónlistinni og skapar sterk hughrif með píanóinu. Sem dæmi þá er tónlistin létt og glaðleg í fyrsta laginu - í hressilegum göngutakti - en um leið og strákurinn kemur að læknum í næsta lagi, þá breytist stemningin. Takturinn verður annar, göngulagið verður öðru vísi og stemningin allt önnur. Galsinn er horfinn og hann hlustar á lækinn meðan hann gengur með honum. Þegar hann sér mylluna, heyrum við mylluhjólið snúast í píanóinu. Þetta er meistaralega gert - aldrei neitt gervilegt eða klúðurslegt. Þetta er eins og það hafi alltaf átt að vera svona og alltaf verið til. Síðasta lagið er eins og dauðamars, fjarar smám saman út og líður niður í ekki neitt, hvort sem það er svefninn eða dauðinn. Þetta er meistaralega samið verk."