TUTTUGU og átta starfsmönnum Íslenskra aðalverktaka hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu úr ýmsum deildum á Keflavíkurflugvelli. Flestir starfsmannanna eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Að sögn Árna I.

TUTTUGU og átta starfsmönnum Íslenskra aðalverktaka hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu úr ýmsum deildum á Keflavíkurflugvelli. Flestir starfsmannanna eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Að sögn Árna I. Stefánssonar, starfsmannastjóra Íslenskra aðalverktaka, eru uppsagnirnar tilkomnar vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í verkefnum á Keflavíkurflugvelli.

Um er að ræða bæði verkamenn, iðnaðarmenn, tæknimenn og skrifstofufólk en starfsfólk fékk uppsagnir í hendur í gær og fyrradag. Að sögn Árna hefur legið ljóst fyrir í nokkurn tíma að segja þyrfti upp starfsfólki.

Stærsta verkefni ÍA á Keflavíkurflugvelli í dag er endurnýjun á íbúðarhúsnæði fyrir varnarliðsmenn. Starfsmenn Íslenskra aðalverktaka eru 450, þar af eru tæplega 200 á Keflavíkurflugvelli.