JÓN Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, segist ætla að fara nánar yfir framkvæmd endurgreiðslu vegna lækniskostnaðar, en í Morgunblaðinu í gær er sagt frá ungu fólki sem þurfti að greiða að fullu fyrir eyrnabólguaðgerð sem sjö ára sonur þess...

JÓN Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, segist ætla að fara nánar yfir framkvæmd endurgreiðslu vegna lækniskostnaðar, en í Morgunblaðinu í gær er sagt frá ungu fólki sem þurfti að greiða að fullu fyrir eyrnabólguaðgerð sem sjö ára sonur þess fór í 7. janúar síðastliðinn, meðan á deilu sérfræðilækna og Tryggingastofnunar stóð.

Foreldrarnir þurftu að greiða 21 þúsund kr. fyrir aðgerðina og hafa nú fengið þau svör frá TR að aðgerðin verði ekki endurgreidd.

"Ég ætla að fara nánar yfir framkvæmdina á þessu áður en ég tjái mig um það hvað þarna er um að ræða," sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Hann sagðist ætla að fá upplýsingar hjá Tryggingastofnun um hvað þarna væri um að ræða og hvort um væri að ræða fleiri tilfelli af þessu tagi áður en hann myndi tjá sig um málið.