FRAMKVÆMDASTJÓRN Landspítala - háskólasjúkrahúss ákvað í gær að starfrækja bráðamóttöku við Hringbraut allan sólarhringinn sjö daga vikunnar, þrátt fyrir fyrri áform um að loka deildinni um helgar.

FRAMKVÆMDASTJÓRN Landspítala - háskólasjúkrahúss ákvað í gær að starfrækja bráðamóttöku við Hringbraut allan sólarhringinn sjö daga vikunnar, þrátt fyrir fyrri áform um að loka deildinni um helgar. Hins vegar verður dregið úr starfsemi og mönnun deildarinnar.

Hjartasjúklingum verður sinnt með svipuðum hætti hér eftir sem hingað til en skv. upplýsingum Pálma R. Pálmasonar, formanns stjórnarnefndar LSH, er í samþykkt stjórnarinnar talið að í vissum tilvikum kunni að verða nauðsynlegt að beina sjúklingum fyrr en verið hefur af bráðamóttöku inn á hlutaðeigandi deild spítalans. Með þessum hætti er talið að spara megi 25-30 milljónir kr.

Talið er að nálægt 100 millj. kr. skorti inn í rekstraráætlun á slysa- og bráðasviði spítalans. Áfram verður haldið að endurskoða mönnun sviðsins, m.a. í Fossvogi.

Þá verður gerð úttekt á því hvort sjúklingar sem leita til slysadeildar væru betur komnir annars staðar, í heilsugæslu eða á einkastofum lækna.

Ákvað framkvæmdastjórnin jafnframt í gær að skoða gaumgæfilega kostnað og starfsemi allra bráðamóttakna spítalans. Kostnaður við rekstur á öllum bráðamóttökudeildum LSH er á bilinu 800 til 900 millj. kr. á ári. Talið er mjög dýrt að reka bráðamóttöku á mörgum stöðum og hefur stjórn spítalans því ákveðið að láta fram fara nákvæma skoðun á því hvort ekki megi sameina meginbráðamóttöku spítalans á einn stað.