ÖGMUNDUR Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar á Alþingi í gær og sagði að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins hefði verið óstarfhæf undanfarnar vikur vegna deilna um hæfi formanns...

ÖGMUNDUR Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar á Alþingi í gær og sagði að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins hefði verið óstarfhæf undanfarnar vikur vegna deilna um hæfi formanns nefndarinnar, Péturs Blöndal, Sjálfstæðisflokki.

Nefndin hefði verið kölluð saman í jólafríi þingsins, út af málefnum sparisjóðanna, en ekkert hefði orðið af fundarhöldum vegna deilna um formanninn. "Það er eðlilegt að gera alvarlegar athugasemdir við störf þingsins, þegar þjóðfélagið bókstaflega logar í deilum þá geti þingið ekki komið saman eða þingnefndir, þær séu óstarfhæfar vegna deilna um formanninn." Deilurnar snerust um hæfi Péturs vegna aðkomu hans að málefnum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.

Nokkur umræða varð um þetta á þingfundinum og tóku margir þingmenn til máls. Pétur Blöndal sagði m.a. að allur málatilbúnaður hefði verið ómálefnalegur. Hann væri vissulega hæfur til að gegna formennsku. "Mikil umræða hefur farið fram um hæfi þingmanna og sérstaklega um hæfi minnar persónu. Ég vil benda á að háttvirtur þingmaður Helgi Hjörvar gætir hagsmuna t.d. öryrkja og þykir ekkert að því og ég hef ekkert við það að athuga. Það eru margir aðrir þingmenn sem eru að gæta hagsmuna. Þeir eru kosnir á þing til þess og ég er þess vegna ekki vanhæfur."