Aðalleikararnir fjórir sólbrenndir og sællegir: Hanna Borg og Jón Ragnar Jónsbörn eru tvíburar og bæði í stórum hlutverkum ásamt Kristjáni Sturlu Bjarnasyni og Ernu Sigmundsdóttur. Þau hafa öll tekið þátt í sýningum áður og eru á þriðja ári í námi.
Aðalleikararnir fjórir sólbrenndir og sællegir: Hanna Borg og Jón Ragnar Jónsbörn eru tvíburar og bæði í stórum hlutverkum ásamt Kristjáni Sturlu Bjarnasyni og Ernu Sigmundsdóttur. Þau hafa öll tekið þátt í sýningum áður og eru á þriðja ári í námi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krakkar hafa gaman af því að fara í stórum hópum til útlanda, ekki síst á sólarströnd. Hvað þeir gera þar kemur í ljós í nýjum söngleik, sem Verzlunarskóli Íslands setur upp í Loftkastalanum. Segir þar frá ævintýrum hóps sólbrenndra ungmenna á Benidorm.

Krakkar hafa gaman af því að fara í stórum hópum til útlanda, ekki síst á sólarströnd. Hvað þeir gera þar kemur í ljós í nýjum söngleik, sem Verzlunarskóli Íslands setur upp í Loftkastalanum. Segir þar frá ævintýrum hóps sólbrenndra ungmenna á Benidorm.

Söngleikurinn heitir Sólstingur en höfundur hans er leikarinn og grínistinn góðkunni Þorsteinn Guðmundsson. Sýningin er sett upp í tilefni Nemendamóts Verzlinga, sem er eins konar árshátíð nemenda.

Ekkert minna en þrjár sýningar duga fyrir skólann, ein hinn 4. febrúar og tvær 5. febrúar, á Nemendamótsdaginn sjálfan.

Sólstingur verður eftir það tekinn til almennra sýninga, sem verða auglýstar þegar nær dregur. Margeir Hafsteinsson, formaður Nemendamótsnefndar, segir að stefnt sé á að halda 15-20 sýningar alls en þeir söngleikir sem Verzló hefur sett upp hafa almennt hlotið góðar viðtökur. Meðal þeirra eru Thriller, Slappaðu af, Made in USA og Wake me up before you go go, sem var vinsælasta leikverk ársins 2001.

Nemendur Verzlunarskólans sjá að mestu um uppsetningu. Í kringum 120 manns koma á einn eða annan hátt að sýningunni í margvíslegum hlutverkum. Utanaðkomandi fagmenn taka líka þátt en leikstjóri er Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri Jón Ólafsson, danshöfundur Helena Jónsdóttur og Sigurður Kaiser er sviðs- og ljósahönnuður.

Margeir er 19 ára og á síðasta ári líkt og aðrir í Nemendamótsnefnd. Hann segir tónlistina í sýningunni vera fjöruga, "allt frá Bítlunum, sem var popp þess tíma, til dagsins í dag með U2, Madonnu og fleirum," segir hann en lögin eru langflest sungin á íslensku. "Þetta er gamansöngleikur, bara létt og skemmtilegt," segir Margeir aðspurður, "poppuð stemning".

"Þetta er mikið álag og tekur sinn toll frá náminu," segir hann um hvort þetta sé ekki erfitt starf. "Með góðri skipulagninu og verkaskiptingu þá á þetta að ganga upp," segir Margeir en um níu mánuðir eru liðnir frá því að undirbúningurinn hófst en prufur fóru fram á haustmánuðum. Margeir er í raun framkvæmdastjóri sýningarinnar. "Þetta er bara eins og að reka lítið fyrirtæki og ágætur undirbúningur fyrir atvinnulífið."

ingarun@mbl.is