[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blettur á samviskunni - The Human Stain segir af Silk (Anthony Hopkins), prófessor í klassískum bókmenntum á Nýja Englandi. Þegar upp kemst um framhjáhald hans og húsvarðar skólans (Nicole Kidman), upplýkst einnig hálfrar aldar gamalt leyndarmál prófessorsins, sem hann hefur falið fyrir konu og börnum. Frumsýnd í Háskólabíói og Sambíóunum. Leikstjóri Robert Benton.

"Við skiljum eftir okkur óhreinindi, slóðir, ummerki... hjá því verður ekki komist."

Eitthvað á þessa leið kemst bandaríski rithöfundurinn Philip Roth að orði í metsölubókinni Blettur á samviskunni - The Human Stain. Sögunni af Coleman Silk (Hopkins), sem hefur alla ævi verið snillingur í sjálfsblekkingum og sýndarmennsku. Sem efnilegur nemandi (Wentworth Miller), við upphaf háskólanáms, finnur hann fyrstu ástina í lífinu, sem er Steena (Jacinda Barrett), skólasystir hans. Samband þeirra endar í þrúgandi leyndarmáli.

Allt leitar upp á yfirborðið

Árin líða, Silk (Hopkins) er orðinn mikils metinn prófessor á Nýja Englandi þegar starfsferill hans er í uppnámi sakir upploginna ásakana. Hann lendir í hneykslismáli, framhjáhaldi með Fauniu (Nicole Kidman), ungri og dularfullri, giftri konu sem starfar sem húsvörður við skólann. Bæld kynhvöt Silks vaknar til lífsins að nýju og ýfir upp löngu liðna atburði. Endurfæddum ástríðunum fylgir böggull skammrifi, sem er aðsteðjandi ógn fyrrverandi eiginmanns Fauniu (Ed Harris), og Silk stendur andspænis óumflýjanlegu uppgjöri við fortíðina.

Einvalalið stendur að baki The Human Stain. Anthony Hopkins og Nicole Kidman eru með virtustu og eftirsóttustu kvikmyndaleikurum samtímans. Frábærir listamenn sem verður forvitnilegt og sögulegt að sjá í slagtogi á tjaldinu. Aukaleikarahópurinn er m.a. skipaður Ed Harris og Gary Sinise, skapgerðarleikurum í fremstu röð. Auk þeirra má nefna Harry Lennix og Clark Gregg.

Leikstjórnin er í höndum Roberts Benton, margreynds bolta sem á m.a. að baki stórvirkin Kramer vs Kramer, The Late Show og Places in the Heart. Handritið er skrifað af Nicholas Meyer (The-Seven-Per-Cent Solution, Time After Time), byggt á sögu eftir Pulitzer-verðlaunaþegann Philip Roth (Portnoy's Complaint).

saebjorn@mbl.is