Ed Bloom (Albert Finney) liggur fyrir dauðanum og sonur hans, Will (Billy Crudup), reynir að púsla saman í eina öllum sögunum sem karlinn hefur sagt um dagana. Fæstar trúverðugar eða hvað? Tim Burton leikstýrir Big Fish sem er frumsýnd í Smárabíói, Regnboga og Borgarbíói, Akureyri.

Sá ágæti leikstjóri Tim Burton er þekktur fyrir myndir gjörólíkar Big Fish, sem er bráðhress og skemmtileg blanda fantasíu og gamanmyndar með mátulegum skammti af dramatísku kryddi. Óheft hugmyndaflug hans nýtur sín greinilega engu síður í birtunni en myrkrinu. Í myndinni, sem minnir nokkuð á Forrest Gump, er Will kominn að dánarbeði föður síns og leitar sannleikans í þeirri ofgnótt lygasagna sem jafnan hafa flætt frá karli um líf hans og störf. Bloom gamli tekur sig til og rekur ótrúlegt lífshlaup, allt frá því að hann sem ungur maður (Ewan McGregor) heldur frá Alabama í hnattferð ævintýra og dúlúðar af öllum stærðum og heim aftur.

Will verður að greina sannleikann frá ýkjunum í sögu sem greinir frá risum, dvergum, síamstvíburum, nornum, skáldum, rómantískum kynnum af konu hans (Jessica Lang), og þá er fátt eitt talið.

Fjöldi annara leikara kemur fram, m.a. Danny DeVito, Helena Bonham Carter, Steve Buscemi og Robert Guillaume. Big Fish hlaut 7 BAFTA-tilnefningar á dögunum.

Sir Albert? Aldrei!

Albert Finney er óumdeilanlega einn af stórleikurum samtímans og hefur unnið óteljandi leiksigra frá því hann stimplaði sig inn með glæsibrag á 6. áratugnum. Afrekin hefur hann unnið jafnt í leikhúsi sem á tjaldi og hafa margir spurt sjálfa sig að því hvenær hennar hátign, Elísabetu II., þóknist að aðla manninn. Meðal annars hefur sá sem þessar línur skrifar marghneykslast á því sem hann hélt kæruleysi drottningar, sem hefur ausið út titlum á menn á borð við Cliff Richard, Paul McCartney, Mick Jagger o.s.frv. (með fullri virðingu fyrir þessum höfðingjum) á meðan minn maður lá óbættur hjá garði.

Nú get ég frætt lesendur um þau ánægjulegu sannindi að ástæðan fyrir titlaleysi Finneys er að hans eigin óskum. Stórleikarinn hefur þetta um málið að segja:

"Kallið mig Sir, ef þið viljið! Það getur vel verið að almenningur í Bandaríkjunum haldi að það að vera Sir sé eitthvað merkilegt. Mín skoðun er sú að allir sem einn séum við Herrar. Að mínum dómi er þetta "Sir"-mál til þess eins fallið að viðhalda hábreskum lasleika sem kallast snobb. Það hjálpar líka við að gera okkur skringilega ("quaint"), sem mér geðjast ekki að heldur. Þú græðir ekki mikið á titlinum lengur, ræningjaaðall miðalda sá fyrir því."

Albert Finney hafnaði aðalstigninni árið 2000 og hafði afþakkað OBE-orðuna 20 árum áður. Húrra fyrir Finney, David Bowie, Keith Richards og öðrum þeim frábæru listamönnum sem gefa lítið fyrir úrelt þing. saebjorn@mbl.is