Mér hefur oft fundist afstaða okkar Íslendinga til útlendinga vera einkennileg. Ég skil til dæmis ekki af hverju flóttamenn fá ekki hæli hér.

Mér hefur oft fundist afstaða okkar Íslendinga til útlendinga vera einkennileg. Ég skil til dæmis ekki af hverju flóttamenn fá ekki hæli hér. Á meðan nágrannaþjóðirnar taka við hópum af flóttamönnum eru þeir sem hingað leita undantekningalaust sendir til baka. Af hverju? Koma bara platflóttamenn hingað?

Í seinni heimsstyrjöldinni kom hingað skip fullt af þýskum gyðingum sem óskuðu eftir því að fá að vera hér frekar en að fara í útrýmingarbúðir. Við gátum því miður ekki orðið við því og þeim var vísað aftur til Þýskalands. Þegar varnarsamningurinn við Bandaríkin var gerður var sérstaklega farið fram á, af hálfu Íslendinga, "að hér yrðu aldrei neinir svartir hermenn". Mér finnst þetta skrítið. Eru Íslendingar kynþáttahatarar? Erum við á móti fólki sem er öðruvísi en við?

Umfjöllun fjölmiðla er líka oft mjög skrítin. Af hverju þarf að taka fram þjóðerni fólks sem fremur glæpi? Hvaða máli skiptir það? Hver kannast ekki við setningar eins og þessa: "...maðurinn, sem er Tælendingur, var handtekinn..."? Mér finnst það ekki skipta neinu máli yfirleitt hvaðan fólk er. Oftast er þessari staðreynd um þjóðernið bara hnýtt við fréttina til að gera hana safaríkari. Aldrei sér maður fréttir þar sem kynhneigð er tekin fram; "lögreglan handtók í gær mann fyrir ölvun. Maðurinn, sem er hommi, var mjög drukkinn..."

Svona frétt væri umsvifalaust talin ala á fordómum í garð homma. Það er löngu sannað að hvorki þjóðerni, litarháttur, kynhneigð né trúarbrögð hafa nein bein áhrif á glæpahneigð. Þjóðfélagsstaða getur aftur á móti haft mikil áhrif. Ef við höldum fólki utan við samfélag okkar útaf hlutum sem fólk getur ekki gert að eða breytt, sköpum við óvild og einangrun og hatur.

Ég fór í ferðalag út á land um síðustu helgi. Ég komst að því að í bæjunum á Íslandi gildir sú regla að aðeins skráðir íbúar fá að koma á þorrablót sem haldin eru fyrir almenning. Þetta er gert til að halda farandverkafólki og aðkomulýð frá hinum dýrmæta súrmat. Reyndar var reglan sú á Neskaupstað lengi vel að maður varð þar að auki að vera félagsbundinn í Alþýðubandalaginu. Þar eru blótin kölluð Kommablót. Á Akureyri er það oft tekið fram að það hafi verið aðkomumaður sem hafi framið einhverja óhæfu. Ég minnist líka fyrirsagnar sem ég sá í landsbyggðarblaði fyrir mörgum árum: "Grænlendingur réðst á mann!"

Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig (jafnvel þótt hann sé grænlenskur svertingi)! Öll þjóðfélagsvandamál byrja heima fyrir, í fjölskyldum og í hugum okkar sjálfra. Og með því að breyta okkur sjálfum breytum við þjóðfélaginu.

Jón Gnarr