Ókunnugt fólk þyrpist í miðbæ Reykjavíkur. Það má greina vissa eftirvæntingu í svipbrigðunum. Þegar klukkan slær þrjú leggjast allir á torgið. Síðan stendur fólkið upp aftur og tvístrast. Lífið gengur aftur sinn vanagang.

Ókunnugt fólk þyrpist í miðbæ Reykjavíkur. Það má greina vissa eftirvæntingu í svipbrigðunum. Þegar klukkan slær þrjú leggjast allir á torgið. Síðan stendur fólkið upp aftur og tvístrast. Lífið gengur aftur sinn vanagang.

Þessi atburðarás er uppistaðan í auglýsingu Landssímans, sem sýnd er í sjónvarpi um þessar mundir og vakið hefur nokkra athygli, en hugmyndin byggist á fundum leifturhópa eða "Flash Mobs", sem fara eins og eldur í sinu um heiminn.

Brotist úr sínu eigin hólfi

"Flash Mob byrjaði í New York í sumar og nú orðið eiga flestar borgir eigið Flash Mob," segir Gary Wake, annar yfirmanna hugmyndavinnu hjá Góðu fólki, sem átti hugmyndina og vann handritið að auglýsingunni.

"Fólk er að brjótast úr sínu eigin hólfi í maurabúi samfélagsins. Það gerir eitthvað óvenjulegt, en síðan heldur lífið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Miklu skiptir að uppákomurnar séu frumlegar og ekki sé verið að stæla það sem aðrir hafa gert. Á sinn hátt er þetta absúrd, en fólki finnst gaman að gera eitthvað brjálað stuttan tíma í lífi sínu."

Um 150 statistar léku í auglýsingunni og hafa líklega aldrei leikið fleiri í íslenskri auglýsingu. Er auglýsingunni ætlað að undirstrika að hugmyndir verða að veruleika í gegnum þjónustu símafyrirtækja, en leifturhópar skipuleggja fundi sína gjarnan í gegnum tölvupóst, Netið, textaskilaboð eða símhringingar.

"Við vildum ekki útskýra hugmyndina á bakvið auglýsinguna í auglýsingunni sjálfri. Fólk verður að átta sig á því sjálft hvaða fyrirbæri er þarna á ferðinni."

Hann segist ekki vita til þess að þetta hafi verið gert hér á landi. "Nei, ég veit ekki til þess að stofnað hafi verið til slíks hóps. En hver veit, það gæti bara verið tímaspursmál áður en einhver lætur til skarar skríða."

Mætt með bakpoka og hjól

Eitt skemmtilegasta dæmið um slíka uppákomu sem Gary hefur heyrt um var í kanadískri borg, þar sem fólk mætti á tiltekinn stað með bakpoka og hjól. Á vissum tíma fór það úr öllum fötunum, setja þau í bakpokann og hjóla nakið um götuna í hálfa mínútu. Svo fór það aftur í fötin og hvert í sína áttina.