[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Æðið hófst í New York í júní sl. Þá barst völdum netverjum tölvupóstur um að taka þátt í listaviðburði undir yfirskriftinni "The Mob Project" eða hópverkefnið. Í póstinum var fólki sagt að samstilla úrin og bíða kl. 19 á bar á Manhattan.

Æðið hófst í New York í júní sl. Þá barst völdum netverjum tölvupóstur um að taka þátt í listaviðburði undir yfirskriftinni "The Mob Project" eða hópverkefnið. Í póstinum var fólki sagt að samstilla úrin og bíða kl. 19 á bar á Manhattan. Þar fékk fólk nánari fyrirmæli.

Græskulaust gaman

Fyrsti hópurinn, hundrað manns, hittist á níundu hæð teppadeildar stórverslunarinnar Macy's og safnaðist saman við tiltekið gólfteppi. Ef einhver úr hópnum var spurður af sölufólki átti sá hinn sami að svara því til að þau byggju öll saman í vöruhúsi í úthverfi New York og að þau vildu ástarteppi til að leika sér á.

Síðan hefur siðurinn breiðst út og "flash mob" eða leifturhópar krunka nefjum um heim allan. Þeir mæla sér mót á Netinu, í tölvupósti, með SMS eða í síma. Ekkert vakir fyrir þeim annað en græskulaust gaman; að hittast, bregða á leik og tvístrast við það sama. Engin pólitík er í spilinu, þó að eitthvað sé pólitískt við það að hópar brjóti upp hversdagsmynstrið með samræmdum aðgerðum.

Andþyrpingarhreyfingar

Það er einnig til "antimob"-hreyfing sem tjáir sig á þveröfugan hátt, þ.e. með þátttöku allra jarðarbúa er stefnt að því að búa til draugastemmningu í tíu mínútur, t.d. á Grand Central Station í New York. Að enginn eigi leið um staðinn á þeim tíma. Sem dæmi um skilaboð í þessa veru má vitna í síðu Jonathans Sandersons: "Mike og ég verðum með "antimob" kl. 10.30 í dag fyrir utan John Lewis í Glasgow. Þér er frjálst að taka þátt með því að mæta ekki. Við sjáumst ekki þar."

Þetta er auðvitað góðlátlegt grín, en alvara býr að baki. Þeir sem standa að "antimob"-hreyfingunni eru þeirrar skoðunar að leifturhópar séu að sóa góðu tækifæri til að láta til sín taka á pólitískum vettvangi. Að uppákomur af þessum toga "sýni mátt fjöldans sem leitar einskis".

Lögreglan á staðnum

Leifturhópar eru heldur ekki alltaf í náðinni hjá yfirvöldum. Frá því segir á netfréttamiðlinum Wired News að 250 manns hafi ætlað að hittast að kvöldlagi kl. 19 í fyrrasumar á Grand Central Station í New York og dansa hópballett. Þegar til kom hafi lögreglan vaktað staðinn.

Það varð úr að hópurinn flutti sig um set á Grand Hyatt-hótelið, gekk hljóðlega upp á veröndina og safnaðast þar saman. Þegar klukkan varð 19.12, þá hóf hópurinn glymjandi lófaklapp og húrrahróp í 15 sekúndur - án nokkurs tilefnis. Síðan tvístraðist hópurinn og í sömu andrá komu lögreglubílar aðvífandi með sírenurnar í gangi.

Bauluðu í mínútu

Allur gangur er á því hvort hóparnir eru opnir öllum eða hvort þeir eru bundnir ákveðnum hóp, sem boðið er að taka þátt í viðburðunum. En dæmi eru um að farnar hafi verið aðrar leiðir. Síðastliðið haust notaði skopmyndateiknarinn Gary Trudeau teiknimyndaþátt sinn Doonesbury til að boða leifturhóp í Seattle á uppákomu til stuðnings Howard Dean, þar sem fólki var uppálagt að mæta á tiltekinn stað, hoppa og hrópa: "The Doctor is in!"

Í öllu falli er ljóst að leifturhópar fara eins og leiftur um heiminn. Auk fjölda borga í Bandaríkjunum hafa þeir m.a. lagt undir sig Amsterdam, Berlín, Búdapest, London, Ósló, Róm og Zürich. Fyrsta leifturhópsins í Evrópu varð vart í Róm, þar sem nokkur hundruð manns fóru í bókabúð og óskuðu eindregið eftir bókum sem höfðu aldrei verið gefnar út og voru ekki til. Fyrsti leifturhópurinn á Nýja-Sjálandi stóð saman af 200 manns, sem fóru á Burger King og bauluðu í mínútu.

Varð alveg bit

Það er ekki viðburðurinn sem er tilgangurinn með leifturhópum heldur fólkið sjálft, að fá það til að brosa að fíflaskapnum. Upphafsmaðurinn, er aðeins þekktur sem "Bill", og byrjaði með lista yfir 50 vini og vini þeirra.

"Ég hafði velt fyrir mér verkefnum, sem gætu fengið fólk til að taka þátt í viðburðum," segir hann í viðtali. "Hvað myndi gerast ef viðburður væri skipulagður og aðeins hugsað fyrir félagslega þættinum? Ég leit á þetta sem strákapör og varð alveg bit þegar þetta fór að berast til annarra borga."

Ekki er vitað til þess að uppákomur af þessu tagi hafi verið skipulagðar hér á landi. pebl@mbl.is