Tristian er erlent mannsnafn, eftir því sem blaðamaður kemst næst. Tristian er líka íslensk hljómsveit, sem var stofnuð árið 1996 og hefur starfað með hléum síðan. Sveitin spilar á Grandrokki í kvöld, ásamt Dikta.

Tristian er erlent mannsnafn, eftir því sem blaðamaður kemst næst. Tristian er líka íslensk hljómsveit, sem var stofnuð árið 1996 og hefur starfað með hléum síðan. Sveitin spilar á Grandrokki í kvöld, ásamt Dikta. Pétur Þór Benediktsson söngvari og Óttar Sæmundsen bassaleikari hafa verið í sveitinni frá upphafi, en núna eru Þorfinnur Sigurðsson hljómborðsleikari og Hannes Pétursson trommari með þeim félögum. Pétur segir að sveitin hafi legið í hálfgerðum dvala að undanförnu.

Hvað er að frétta af ykkur?

"Við höfum verið í hálfgerðu leyfi og erum það eiginlega ennþá, því meðlimir í sveitinni eru að klára skóla í vor. Við lítum hálfpartinn á þetta eins og saumaklúbb, spilum kannski meira okkur til skemmtunar en öðrum, en það er á stefnuskránni að byrja af meiri alvöru með sumrinu."

Ertu að útskrifast í vor?

"Já, ég er að læra tónsmíðar."

Hvernig er með lagasmíðar, sérðu einn um þær?

"Nei, það er sem betur fer að breytast. Núna eru svo til allir í hljómsveitinni farnir að semja lög, þótt ég eigi þau ennþá flest."

Hvernig er að semja "popptónlist" fyrir mann sem er að læra háalvarlegar tónsmíðar? Hjálpar námið? Breytir það lagasmíðunum?

"Allt sem maður gerir hefur auðvitað áhrif og maður reynir að halda öllum gáttum opnum. Ég hef alltaf haft áhuga á klassískum tónsmíðum. Þetta eru auðvitað mjög ólíkar stefnur og stundum getur þetta haft þveröfug áhrif, þegar maður er búinn að vera að vinna mjög skipulega við tónsmíðar. Þá langar mann til að snúa dæminu við í hinu og hlustar jafnvel mikið á þjóðlagatónlist, svo dæmi sé nefnt. Maður er alltaf að hugsa um hvert tónlistin er að fara, á öllum vígstöðvum. Vonandi getur maður einhvern tímann blandað þessu öllu saman."

Er hætta á því að festast í ákveðnum hjólförum, þegar maður er orðinn svona sprenglærður?

"Jú, en sú hætta er alltaf fyrir hendi og hún er jafnvel meiri þegar maður kann lítið fyrir sér. Maður verður alltaf að brjóta upp hugsanamynstrið og ef maður getur gert það einu sinni getur maður það aftur. Ég myndi hvetja alla til að sækja sér menntun, en aldrei láta segja sér hvað þeir eigi að gera þegar þeir fást við listsköpun."

En svo vikið sé að fyrirætlunum Tristian. Ætlið þið að taka upp plötu í sumar?

"Já, við stefnum að því. Við erum reyndar búnir að taka eitthvað upp, en vonandi náum við að klára þetta í sumar." ivarpall@mbl.is