Mynd Nan June Paik, "Simple", er einkennismynd sýningarinnar í Listasafni Íslands.
Mynd Nan June Paik, "Simple", er einkennismynd sýningarinnar í Listasafni Íslands.
STÆRSTA yfirlitssýning á flúxusverkum sem haldin hefur verið hérlendis verður opnuð í sölum Listasafns Íslands kl. 20 í kvöld. Sýningin er fengin hingað til lands frá IFA (Institut für Auslandsbeziehungen) í Stuttgart.

STÆRSTA yfirlitssýning á flúxusverkum sem haldin hefur verið hérlendis verður opnuð í sölum Listasafns Íslands kl. 20 í kvöld. Sýningin er fengin hingað til lands frá IFA (Institut für Auslandsbeziehungen) í Stuttgart.

Á sýningunni gefst tækifæri til að kynnast verkum þeirra listamanna sem mörkuðu hve dýpst spor í listasögu 20. aldar en verkin á sýningunni eru um 200 og spanna tímabilið frá 1962 til 1994, meðal þeirra eru mörg tímamótaverk þýskrar listasögu. Margir af þekktustu listamönnum flúxushreyfingarinnar eiga verk á sýningunni eins og Josef Beuys, Robert Filliou, Emmett Williams og George Brecht. Verk eftir Dieter Roth eru einnig á sýningunni og húmorísk verk Wolf Vostell, þar sem hann breytir hversdagslegum hlutum í skúlptúra, sem hafa verið kallaðir fagurfræðileg eyðilegging.

Sýningarstjórar eru Gabriele Knapstein frá IFA og René Block, einn af virtustu sýningarstjórum heims og hanna þau jafnframt alla uppsetningu sýningarinnar í sölum Listasafns Íslands. René Block á mikið safn flúxusverka og eru nokkur þeirra á sýningunni. Hann hefur stjórnað mörgum sýningum og alþjóðlegum tvíæringum og starfar nú sem safnstjóri Fridericianum-safnsins í Kassel, Þýskalandi.

René Block verður sérstakur gestur Listasafns Íslands við opnunina og verður með leiðsögn um sýninguna á morgun kl. 11.

Íslensk verk

Í tengslum við sýninguna verður opnuð í sal 4 sýning sem nefnist Flúxtengsl - íslensk verk (1965-2001). Þar verða áhrif hinnar alþjóðlegu flúxusstefnu skoðuð en hennar fór að gæta á Íslandi undir lok 7. áratugarins. Það var ekki síst vegna náinna tengsla Dieter Roth við íslenska listsamfélagið að listamennirnir kynntust mörgum flúxuslistamönnum sem margir sýndu hérlendis. Sýningin hefur að leiðarljósi að sýna tengslin við flúxushreyfinguna og hvernig flúxusáhrifa gætir enn í verkum starfandi listamanna í dag. Á sýningunni eru verk eftir meðal annars Magnús Pálsson, Dieter Roth, Jón Gunnar Árnason, Kristján Guðmundsson, Sigurð Guðmundsson, Sólveigu Aðalsteinsdóttur, Árna Ingólfsson, Steingrím Eyfjörð, Kristin G. Harðarson, Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur, Daníel Þ. Magnússon, Eygló Harðardóttur, Helga Hjaltalín og Margréti H. Blöndal.

Sýningarstjórar eru Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður og Harpa Þórsdóttir listfræðingur.

Sýningarnar standa til 14. mars.