NORSKU stjórnarflokkarnir eru klofnir í afstöðunni til þess hvort banna eigi vændiskaup með lögum. Kristilegi þjóðarflokkurinn er hlynntur slíku banni en hinir flokkarnir hafa efasemdir um það, að því er fram kemur á fréttavef Aftenposten .

NORSKU stjórnarflokkarnir eru klofnir í afstöðunni til þess hvort banna eigi vændiskaup með lögum. Kristilegi þjóðarflokkurinn er hlynntur slíku banni en hinir flokkarnir hafa efasemdir um það, að því er fram kemur á fréttavef Aftenposten.

Odd Einar Dørum dómsmálaráðherra, sem er í Venstre-flokknum, hefur skipað nefnd sem á að kanna kosti og galla banns við vændiskaupum. Hann hefur sjálfur efasemdir um tillöguna og einnig Hægriflokkurinn.

"Hægriflokkurinn er í upphafi umræðunnar vantrúaður á bann við vændiskaupum, vegna þess að slíkt bann hefur orðið til þess að vændið hefur farið neðanjarðar," sagði Trond Helleland, formaður dómsmálanefndar norska Stórþingsins.

Kristilegi þjóðarflokkurinn hafði áður sagt að hann væri hlynntur banni við vændiskaupum. Hann vill þó kynna sér betur reynsluna af slíku banni í Svíþjóð, að því er fréttavefur Aftenposten hefur eftir einum þingmanna flokksins, Dagrunn Eriksen.

Ágreiningur í Sósíalíska vinstriflokknum

Deilt er um tillöguna innan Sósíalíska vinstriflokksins (SV), eins af norrænum samstarfsflokkum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. "Við höfum skipst á afdráttarlausum skoðunum, með og á móti," sagði Inga Marte Thorkildsen, þingkona í SV.

Thorkildsen er andvíg banni við vændiskaupum og hefur sagt að Norðmenn þurfi að kynna sér reynsluna af því í Svíþjóð áður en þeir taka ákvörðun um það.

Karita Bekkemellem Orheim, formaður kvenréttindanefndar Verkamannaflokksins, segir að hefja þurfi nýja umræðu innan flokksins um málið ef Stórþingið eigi að taka afstöðu til tillögunnar.

Framfaraflokkurinn er andvígur tillögunni en vill þó ræða niðurstöður nefndarinnar.